141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

samskipti lögregluyfirvalda við FBI og aðkoma innanríkisráðherra.

[11:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Alvarleiki þessa máls er meiri en svo að hægt sé að hafa það í einhverjum flimtingum, en staðreyndirnar tala sínu máli. Við erum með farsælt samstarf við erlent lögreglulið, hvort sem það er í Evrópu eða í Bandaríkjunum, alltaf er farið eftir formlegum reglum, eftir lögum. Við byggjum m.a. á formlegri réttarbeiðni.

Um sama málið er að ræða. Ég stend frammi fyrir því að hlusta á ráðherra eða ríkissaksóknara sem hefur áralanga reynslu við rannsókn mála, mikla þekkingu sem hann leggur til grundvallar öllum rannsóknum á málum. Hann hefur líka mikla reynslu úr samskiptum sínum við útlönd, hvort sem það eru Bandaríkin eða önnur lönd. Hvort á ég að trúa sjálfstæðu ákæruvaldi eða pólitískum ráðherra þegar hann stoppar mál? Ég spyr.

Það er beinlínis vont og það ógnar lýðræðinu að hlusta á ýmsa þingmenn Vinstri grænna, Samfylkingar og annarra hreyfinga hér þegar þeir vega beinlínis að trúverðugleika og sjálfstæði ákæruvaldsins, það er einmitt það sem gert er. Þeir fara þvert á sjálfstætt ákæruvald, því að það er ekki að ástæðulausu sem undirstrikað var og hefur verið undirstrikað, ekki bara í einum, tveimur eða þremur hæstaréttardómum heldur mörgum hæstaréttardómum að það verður að vera hér sjálfstætt ákæruvald sem er laust við pólitískt inngrip eins og af hálfu ráðherra. Það kom berlega fram af hálfu hæstv. ráðherra á fundi allsherjar- og menntamálanefndar — ég velti því stundum fyrir mér hvort ég hafi verið á sama fundi og hv. þm. Lúðvík Geirsson — að það skipti máli hver var til rannsóknar.

Ég tel einmitt að það sé ríkissaksóknara að meta hvort menn eigi að halda áfram með mál. Ég treysti ríkissaksóknara. Ég vil byggja undir sjálfstæði ákæruvaldsins og lögreglunnar og forða henni frá pólitískum afskiptum ráðherra og skjaldsveina hans eins og við verðum hér vitni að. (VigH: Heyr, heyr.)