141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og hv. þingmaður veit er þetta mál til umræðu innan þjóðaröryggisnefndar, það ásamt ýmsu öðru sem lýtur að öryggi og vörnum landsins er til skoðunar þar. Það hefur aldrei staðið til af minni hálfu að gera neinar breytingar á því án þess að um það yrði samstaða í þeirri nefnd og innan þingsins. Það er mál sem að sjálfsögðu þarf að taka hér upp og ræða. Menn þurfa að minnsta kosti að hafa um það umræðu og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þetta er eitt af þeim málum sem varða grundvallaratriði og hv. þingmanni á að vera fullkunnugt um það að ég rasa ekki um ráð fram í þeim efnum.

Málinu var vísað til umfjöllunar hjá þeirri nefnd sem mér skilst að sé langt komin með sitt starf, hvort sem henni tekst að skila því alveg á næstunni eða ekki. En mjög mikilvægt er að um slík grundvallaratriði takist þokkaleg samvinna og sátt meðal þingheims.