141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrslugjöfina. Ég vil benda á kaflann á bls. 46, 4.3.2, Erfiðleikar að fá viðurkennda sérstöðu Íslands í ýmsum málum. Þar er fjallað um að erfiðlega gangi að fá að viðhalda undanþágum frá regluverki ESB varðandi ýmsa hagsmuni Íslands á vettvangi EES-samningsins. Þar eru nefnd dæmi um þar sem farið hefur verið fram á slíkt af íslenskum stjórnvöldum með skírskotun í sérstöðu Íslands sem eyju. Þar eru til að mynda reglugerðirnar um akstur og hvíldartíma, nautgripaslátrun og þriðju raforkutilskipunina.

Mig langar í því ljósi að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig getur viðkomandi ráðherra á sama tíma haldið því fram að Íslandi fái einhverja sérmeðferð til að mynda í sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum, gangi landið í Evrópusambandið, með skírskotun í sérstöðu landsins sem minnst er á í (Forseti hringir.) kaflanum?