141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:20]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú toppaði hæstv. utanríkisráðherra sig í þessu andsvari, hann telur að ESB sé orðið hundleitt á EES-samningnum. Þetta eru þær reglur og þeir samningar sem eru í gildi í dag, hæstv. utanríkisráðherra. Íslendingar eru aðilar að EES-samningnum og það eru þau samskipti sem við höfum við Evrópusambandið í dag. Það þýðir ekkert að tala um að það sé einhver orðinn leiður á einhverju, eins og þegar ákveðinn samningamaður var orðinn leiður á samningunum í Icesave og skrifaði bara undir. Svoleiðis eru ekki reglurnar.

Hæstv. utanríkisráðherra telur að það sé bara langtum einfaldara fyrir ESB að þau ríki sem standa að EES-samningnum gangi inn í Evrópusambandið. Því er eðlilegt að spyrja hæstv. utanríkisráðherra á Íslandi hvort hann sé búinn að gefast upp á því ofríki og þeirri frekju Evrópusambandsins að beita Ísland þessum endalausu þvingunum og hálfgerðum (Forseti hringir.) hótunum, sérstaklega þegar rök hæstv. utanríkisráðherra eru þau að við fáum sérlausnir (Forseti hringir.) og undanþágur af því að við erum eyland.