141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:22]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrslu um utanríkis- og alþjóðamál sem lögð er fyrir þingið. Jafnframt vil ég þakka ráðherranum fyrir að hafa tekið upp það verklag að skýrslan sé flutt hér á hverju ári en ekki annað hvert ár eins og áður var. Ég verð þó að byrja á því að lýsa yfir vonbrigðum með að hér er um að ræða skýrslu sem við tökum til umræðu tæpum tveimur dögum eftir að hún er lögð fram. Skýrslan er á annað hundrað blaðsíður. Það er auðvitað fráleitt þannig að við þingmenn höfum ekki haft nægjanlegt tækifæri til þess að gaumgæfa skýrsluna og lesa hana almennilega áður en umræða hófst hér á þinginu. Ég hlýt að gera athugasemdir við það. Ég skal bara greina frá því alveg umbúðalaust að mér hefur ekki gefist tækifæri (Utanrrh.: Þú kannt þetta.) til þess að lesa skýrsluna (Utanrrh.: Þú bara kannt þetta allt.) frá upphafi til enda.

Utanríkisráðherra segir mig kunna öll þessi mál og þess vegna stend ég nú hér, ég þykist vera ágætlega að mér um helstu málaflokkana. Ég hlýddi á ræðu ráðherrans og ætla nú að víkja að þeim atriðum í máli hans og að þeim atriðum sem ég hef skoðað í skýrslunni sem mér finnst ástæða til að staldra sérstaklega við.

Ég vil byrja á því að segja að mér finnst að í ráðherratíð hæstv. ráðherra hafi verið haldið vel á mörgum málaflokkum. Það á t.d. við um allt það sem snýr að þróunarsamvinnunni, en ég vil þó gera þann almenna fyrirvara þar á að ég tel að við á Alþingi þurfum að leggja okkur meira fram við að fylgja eftir þeim framlögum sem renna til þess málaflokks. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég segi það hér. Sérstaklega á það við um skiptinguna á milli tvíhliða og fjölþjóðaaðstoðar. Mér finnst að við eigum að gera gangskör að því að taka út árangurinn af þeim framlögum sem renna til þróunarsamvinnunnar og fikra okkur þannig í gegnum árin smátt og smátt áfram til þess að fá hámarksnýtingu á þessum fjármunum. Við höfum skyldu til þess að passa vel upp á þá fjármuni vegna þess að þeir hafa farið vaxandi og það eru verulega háar fjárhæðir sem við leggjum í þessa málaflokka. Við hljótum að gera kröfu til þess að hverju sinni líði okkur vel með að fá hámarksafrakstur af því framlagi sem við höfum fram að færa. Þótt það sé lítið í heildarsamhengi hlutanna er það samt alvöruframlag af okkar hálfu í okkar samhengi. Stefnt er að því að það fari vaxandi.

Ég get líka nefnt þjóðaröryggisstefnuna, þ.e. þá vinnu sem átt hefur sér stað á þeim vettvangi. Mér finnst hafa verið haldið skynsamlega á því með því að vinna að því máli á þverpólitískum grundvelli eins gert hefur verið. Farið er yfir það í skýrslunni og eflaust munu fleiri koma inn á það í umræðunni að sú vinna hefur haft ágætan framgang. Ég tel að þar sé verið að vinna að mikilvægum málaflokkum.

Í skýrslunni er jafnframt farið inn á fjölmörg önnur atriði sem ég ætla í upphafi máls míns að staldra stuttlega við áður en ég fer í þau stóru mál sem mér finnst rétt að verja tímanum að mestu í. Þar gæti ég t.d. nefnt aðstoð við atvinnulífið á erlendri grundu. Mér finnst það líka vera málaflokkur sem við ættum að gefa betri gaum á þinginu almennt, hvernig gengur að ná þeim árangri sem við viljum ná með opinberri aðstoð og samstarfi við atvinnulífið. Kannski er rétt að nálgast það mál fyrst og fremst út frá ánægju hjá atvinnulífinu sjálfu. Við höfum svo sem ekki fundið fyrir mikilli óánægju þar en við heyrum samt sem áður af og til raddir um að sú aðstoð skipti suma í atvinnulífinu ekki mjög miklu máli. Ekki eru allir sammála um það, en víst er að mörg þeirra verkefna sem unnin hafa verið, eins og undir merkjum Iceland Naturally, hafa skilað góðum árangri. Þarna þurfum við líka að meta reglulega og taka það til umræðu á þinginu hvort við erum á réttri leið og hvort fjármununum sé vel og skynsamlega varið.

Ég skauta yfir nokkur af hinum stóru málum hér og nefni alþjóðaöryggismálin í stóru samhengi. Ég ætla ekki að fara djúpt ofan í það, vegna þess að ég ætla að vinda mér í það sem fjallað er um í skýrslunni og snýr að Evrópusambandinu og EES-samstarfinu.

Varðandi viðræðurnar um aðild okkar að Evrópusambandinu eru það mikil vonbrigði hvernig þær hafa gengið á kjörtímabilinu. Atvinnuvegaráðherra hefur lýst því yfir fyrir sitt leyti sem formaður Vinstri grænna að hann hefði viljað sjá viðræðunum lokið á þessu kjörtímabili. Ég held að hann sé ekki einn um þá skoðun að við hefðum getað leitt fram einhverja niðurstöðu í málinu innan kjörtímabilsins, en við vitum á sama tíma hvers vegna það hefur ekki gerst. Við vitum að það eru pólitískar ástæður fyrir því að það hefur ekki gerst. Menn hafa ekki verið einhuga um þær áherslur sem tefla ætti fram í viðræðunum. Þar hafa tekist á annars vegar þeir sem halda því fram að þetta sé bara einhver tæknileg úrvinnsla og hins vegar þeir sem eru raunsærri og segja: Nei, þetta er líka stórpólitískt mál, og hafa haldið aftur af hraðanum í ferlinu.

Það var einmitt ábending okkar strax í upphafi málsins, þ.e. þegar greidd voru atkvæði um það í þinginu, hvort ætti yfir höfuð að leggja af stað í þessu máli, að þetta væri svo pólitískt mál að ómögulegt væri að koma fram af einhverri sannfæringu og með trúverðugum hætti gagnvart viðsemjendunum án þess að það væri skýr pólitískur meiri hluti fyrir því á þinginu og skýr pólitískur stuðningur. Það tel ég að hafi sýnt sig á þessu kjörtímabili.

Ég hef margoft bent á að viðræðurnar við Evrópusambandið hafa tekið mun lengri tíma hjá okkur en þær gerðu hjá öðrum EFTA-þjóðum og voru að koma úr EES-samstarfinu. Þá er sagt: Það er vegna þess að viðræðuferlið hefur breyst. Rýnivinnan tekur lengri tíma. Það eru formlegar ástæður fyrir því auk þess sem Evrópusambandið hefur stækkað og um fleira er að semja.

Við því er það að segja að jafnvel þótt rýnivinnan hafi eitthvað tafið ferlið ætti hún ekki að hafa tafið ferlið um meira en eitt ár. Þegar við leggjum það heila ár saman við þann tíma sem það tók aðrar þjóðir að ljúka málinu sjáum við að við erum komin miklu skemmra á veg, enda erum við með nýleg dæmi þess að ríkisstjórnin hefur hreinlega lagt fram sínar eigin hugmyndir um að slá á frest stórum og mikilvægum köflum. Sagt er að það sé vegna kosninganna en við vitum að það er vegna innanmeina hjá stjórnarflokkunum, þ.e. engin samstaða er um hvernig halda á á þeim stóru viðkvæmu málaflokkum sem þar eru undir.

Það vildi ég sagt hafa um framgang málsins. Hitt er síðan það að hér hefur farið fram allt of lítil umræða um þá þróun sem átt hefur sér stað í Evrópusambandinu frá því að umsóknin var lögð fram. Það snýr m.a. að þeim breytingum sem eru að verða innan Evrópusambandsins og krefjast mjög aukins framsals ríkisvalds í þágu hinna sameiginlegu markmiða Evrópusambandsins á fjölmörgum sviðum. Mest áberandi hefur það verið á fjármálasviðinu, bæði hvað varðar samræmingu reglna um bankamál og bankaeftirlit en ekki síður á sviði ríkisfjármála. Það er hápólitískt mál hvernig Evrópusambandið birtist okkur í síauknum mæli sem pólitískt bandalag sem stefnir í átt að stórauknum samruna á allra næstu árum. Það hljótum við að þurfa að taka upp hér og bæta inn í umræðuna um hvort Ísland eigi erindi í þetta batterí í ljósi þess að það mun krefjast mun ríkara framsals ríkisvalds en við blasti þegar umsóknin var lögð fram.

Það verður mönnum líka ljóst að það verður tilhneigingin á fleiri sviðum. Það er ekki bara til komið vegna hinnar sameiginlegu myntar, en hún gerir það að verkum um þessar mundir vegna efnahagskrísunnar sem ríkir á Evrópusvæðinu eða á evrusvæðinu, skuldakreppunnar sem þar er viðvarandi, að þetta hefur reynst ríkjunum óhjákvæmilegt. Með því á ég við að fyrir einungis örfáum árum síðan hefðu þjóðríki Evrópusambandsins aldrei tekið það í mál að framselja ríkisvaldið til sameiginlegra stofnana t.d. á sviði fjárlagagerðar, og undirgangast lagareglur um slík grundvallarmál hvers þjóðríkis að hafa sjálfdæmi um það hvernig fjárlög hvers árs líta út. Það hefðu menn aldrei verið tilbúnir til að gera fyrir einungis örfáum missirum síðan, en vegna evrukrísunnar eru menn þvingaðir til að gera það.

Hvaða afleiðingar hefur það haft innan Evrópusambandsins? Einstaka ríki sem standa utan evrunnar eru orðin mjög hugsi og ekki viss um hvort þau vilja halda áfram á þessari braut. Skýrasta dæmið er það sem birtist okkur í umræðunni í Bretlandi þar sem nú er stefnt að því að ná nýjum samningum um aðild Bretlands að Evrópusambandinu og framkvæma síðan í framhaldinu sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við vitum að fleiri ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, Evrópusambandsmegin, sem eru í svipuðum hugleiðingum. Það er t.d. engin tilviljun að Tékkar undirrituðu ekki ríkisfjármálasáttmálann á síðasta ári. Það voru auðvitað mjög söguleg tíðindi þegar ekki tókst að fá öll 27 aðildarríki Evrópusambandsins til að undirrita þann samning sem þar var undir. Þar birtist okkur sem sagt ákveðinn klofningur innan sambandsins á milli þeirra sem vilja stöðugt meiri samþjöppun valds, stöðugt meiri sameiningu, stöðugt fleiri þætti sem heyra undir sameiginlegar stofnanir, meira og meira valdaframsal frá þjóðríkjunum til hinna sameiginlegu valdastofnana Evrópusambandsins, og hinna sem vilja ganga í öfuga átt, sem vilja ekkert meira valdaframsal frá þjóðríkjunum fyrir þá sem vilja meira að segja ganga svo langt að endurheimta framsal sem þegar hefur átt sér stað frá Evrópusambandinu líkt og Bretar hafa verið að tala um.

Þetta er alvarlegur klofningur. Hann birtist okkur kannski mest á milli ríkjanna sem eru nú þegar komin inn í evruna og þeirra sem enn standa utan, en það eru fleiri en bara þeir sem standa utan evrunnar sem hafa af þessu áhyggjur.

Það ætti að vera okkur Íslendingum sérstaklega mikið umhugsunarefni vegna þeirrar lýðræðisbyltingar, ef ég má leyfa mér að nota það orð, sem átt hefur sér stað hér undanfarin ár með stóraukinni kröfu um beina aðkomu fólks að ákvörðunum sem varðar það miklu í daglegu lífi þess. Þar er ég auðvitað fyrst og fremst að tala um þjóðaratkvæðagreiðslur og beint lýðræði eins og það birtist okkur mjög víða á sveitarstjórnarstiginu.

Sú þróun sem við sjáum hjá Evrópusambandinu er í þveröfuga átt. Hún gengur öll í þá átt að færa vald frá fólkinu í landinu yfir til Evrópusambandsins og sameiginlegra stofnana þar. Það verður erfiðara og erfiðara að kalla til ábyrgðar pólitíkusa sem hafa haft með niðurstöðuna að gera vegna þess að hún verður tekin ekki bara langt frá fólkinu heldur meira að segja langt utan landsteinanna. Í því samhengi er ágætt að rifja það upp að við Íslendingar mundum í mörgum af þessum stóru ákvörðunum kannski eiga fimm, sex þingmenn af tæplega 800 á Evrópuþinginu. Það er stóra samhengi hlutanna.

Varðandi EES-samninginn sérstaklega þá er um hann fjallað í skýrslunni og sérstaklega komið inn á að reglur um fjármálaeftirlit séu dæmi um mál þar sem steytt geti á skerjum í samstarfi EFTA-ríkjanna við ESB. Á bls. 44 í skýrslunni er vikið að því að Evrópusambandið geri nú kröfu til þess að fá endanlegt ákvörðunarvald til stofnana sinna vegna fjármálaeftirlits á sameiginlega markaðnum. Í skýrslunni er síðan rifjað upp að á grundvelli 102. gr. samningsins sé það svo að takist ekki samkomulag um upptöku ESB-gerðar í viðauka samnings geti ESB vísað málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar og hafi málið ekki verið leyst að liðnum sex mánuðum geti það í versta falli þýtt að framkvæmd þess hluta viðkomandi viðaukasamningsins sem gerðin tekur til, í þessu tilviki fjármálaþjónustu, sé frestað. Það geti haft bein áhrif á frjálsa för fjármagns, þ.e. að við séum að stefna inn í eitthvað ástand þar sem Evrópusambandið geti einfaldlega útilokað okkur frá þátttöku í EES sem varðar frjálsa för fjármagns.

Þarna held ég að allt of djúpt sé tekið í árinni hjá skýrsluhöfundum fyrst og fremst vegna þess að grundvöllur EES-samningsins er reistur á tveggja stoða kerfi.

Ef fram kemur krafa frá öðrum aðilanum um að vikið verði frá grundvelli samkomulagsins getur hann ekki nýtt sér heimildir sem byggðar eru inn í samninginn til þess að vísa hinum aðilanum út. Það bara stenst ekki. Það er slíkt grundvallaratriði (Forseti hringir.) samningsins að hann er reistur á tveggja stoða kerfi að ég tel að það sé ómögulegt. Þess vegna verðum við að standa í lappirnar gagnvart kröfum (Forseti hringir.) Evrópusambandsins um þessar breytingar og krefjast frekar upptöku samningsins á réttum forsendum. (Forseti hringir.) En ég skil það að ráðherrann eigi erfitt með það þegar hann hefur sjálfur mælt fyrir inngöngu (Forseti hringir.) í Evrópusambandið.