141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:38]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Bjarna Benediktssyni um það að til þess að umsókn að Evrópusambandinu geti gengið fyrir sig eins og þar er gert ráð fyrir þarf að vera pólitískur vilji fyrir því að sækja um aðild og fylgja því eftir. Það er alveg hárrétt að umsóknin fór í gang með þeim formerkjum að sumir sögðust ætla að kíkja í pakkann, aðrir sögðust ætla að styðja hana til að þessi ríkisstjórn yrði að veruleika, sem ég skildi nú ekki að væri nein sérstök krafa, en aðrir eru að sækja um af brennandi áhuga og vilja komast inn eins og hæstv. utanríkisráðherra. Hann hefur aldrei dregið dul á það og ekki verið með neinar blekkingar í þeim efnum sem aðrir hafa þó tíðkað og haldið að hægt væri að kíkja í pakkann.

Það er líka rétt að rifja það upp að einmitt af hálfu Evrópusambandsins hefur því verið haldið fram að það sé misskilningur að vera að tala um samningaviðræður í þessum efnum. Umsóknin er bara einhliða inn í Evrópusambandið, það er síðan Evrópusambandið sem ræður hraða umsóknarferlisins sem byggist á því hversu hratt við getum innleitt lög og reglur Evrópusambandsins. Það er staðreyndin. En það er alveg hárrétt að þegar annar fer og reynir að kíkja í pakkann og hinn að sækja um þá náttúrlega gengur það ekki upp.

Ég vil aðeins mótmæla því að rýnivinnan hafi tafist eitthvað af hálfu íslenskra stjórnvalda. Alls ekki. Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann: Hefur hann í utanríkismálanefnd eða annars staðar fengið að heyra vilyrði frá forsvarsmönnum Evrópusambandsins um að Ísland geti fengið varanlega undanþágu frá lögum og reglum Evrópusambandsins í einhverjum málum? Hefur hann heyrt eða séð (Forseti hringir.) yfirlýsingar í þá veru að við getum fengið varanlegar undanþágur frá lögum Evrópusambandsins? Ég hef aldrei séð það.