141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:40]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vík ekki frá þeirri skoðun minni að djúpstæður pólitískur ágreiningur um aðild að Evrópusambandinu milli stjórnarflokkanna hafi valdið töfum í viðræðuferlinu. Það er mín skoðun. Þannig birtist það mér til dæmis þegar menn hafa verið að baksa við að koma saman samningsmarkmiðum í einstökum köflum. Gott og vel. Það skiptir í sjálfu sér ekki höfuðmáli hvort við hv. þingmaður erum sammála um þetta atriði.

Hann spyr hvort ég hafi orðið þess áskynja að hægt sé að fá varanlegar undanþágur frá regluverki Evrópusambandsins. Svarið við því er nei. Það er jafnframt meginsvarið sem við höfum fengið frá þeim sendinefndum sem hafa komið hingað til okkar í tilefni af viðræðuferlinu. Það hefur ekki skipt máli hvort við höfum verið að tala við Kýpverja, Maltverja eða Eista, Svía, Þjóðverja, aðra — við fáum alltaf sama svarið, að ekki séu veittar varanlegar undanþágur, en þó eru nefnd einstaka dæmi um sérlausnir. Við þekkjum öll dæmin, það er orðið þreytt að telja þau upp, en þau snúast um munntóbak í Svíþjóð og landbúnaðurinn er nefndur norðan 62. breiddargráðu. Ég tel þetta í sjálfu sér ekki vera stóra atriðið.

Það getur vel verið að Evrópusambandið sjái ljósið og geri breytingar á fiskveiðistjórnarstefnu sinni og opni fyrir sérstök fiskveiðistjórnarsvæði. En ég tel að það eitt og sér mundi ekki leysa öll þau álitamál sem uppi eru varðandi það hvort Ísland á heima innan Evrópusambandsins eða ekki. Þar er ég sérstaklega að vísa til þess sem ég var að tala hér um áðan, þ.e. í hvaða átt Evrópusambandið er að stefna, að sjúga alltaf til sín meiri og meiri völd á fleiri og fleiri sviðum. Ég leyfi mér líka að efast um að Evrópusambandið geti, þrátt fyrir mögulegar breytingar á fiskveiðistjórnarstefnunni, mætt öllum þeim kröfum og áhyggjum sem birtast til dæmis í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar og mótað hafa samningsafstöðu okkar fram til þessa.