141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:49]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Einu sinni sagði við mig maður að ekki ætti að stökkva yfir lækinn fyrr en komið væri að honum, maður gæti litið afskaplega kjánalega út úti á miðju túni í háum stökkum. Ég tel að það sé ekki komið að því að við þurfum að taka ákvörðun um það og ræða það djúpt hvað við mundum gera ef samstarfið um Evrópska efnahagssvæðið mundi liðast í sundur. Það er bara ekki komið að því.

Mín ábending er þessi: Krafa Evrópusambandsins um að EFTA-þjóðirnar á EES-svæðinu samþykki að framselja í hendur Evrópusambandsstofnana, sem við eigum ekki aðild að, endanlegt ákvörðunarvald um þætti sem lúta að samstarfinu, eins og fjármálaþjónustu, á ekki stoð í EES-samningnum. Hann er grundvallaður á tveggja stoða kerfi þar sem við lútum endanlegri ákvörðun stofnana sem eru okkar stofnanir og okkar megin í samstarfinu og Evrópusambandið er síðan með sinn stofnanastrúktúr.

Þess vegna segi ég að krafa Evrópusambandsins á þessu sviði varðandi fjármálaeftirlitið gengur í berhögg við grunnstoðir EES-samstarfsins. Þetta þurfum við að benda Evrópusambandinu á og opna augu þeirra fyrir því að krafan er utan samningssviðsins. Þetta snýst ekki um að við viljum ekki taka upp í sameiginlegu EES-nefndinni einhverjar gerðir heldur er verið að fara fram á hluti sem ganga í berhögg við grundvöll samstarfsins. Þess vegna finnst mér ekki standa upp á okkur að svara því hvernig við ætlum að bregðast við. Það stendur upp á Evrópusambandið að svara því. Þeir verða bara að segja við EFTA-ríkin að þau verði rekin út úr EES-samstarfinu. Það mun kalla á að menn setjist niður og velti því fyrir sér hvernig haldið verður áfram frá þeim stað.