141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Ef ég væri illgjarn, sem ég er ekki, mundi ég geta túlkað síðustu ræðu hv. þingmanns með þeim hætti að hann væri í reynd að lýsa því yfir að ef Evrópusambandið mundi skaka að honum skell og hóta, mundi hann hugsa sinn gang.

Frú forseti. Það getur vel verið … (Forseti hringir.) Herra forseti. Kvennaríkið er svo mikið í forsetastóli að maður er orðinn vanur þessu.

Herra forseti. Hv. þingmaður segir að við séum ekki komin að læknum. Um það má deila. En í öllu falli tel ég að það sé ekki úrleiðis af mér sem utanríkisráðherra að spyrja hv. þingmann um afstöðu hans. Ástæðan er sú að hann er ekki venjulegur þingmaður. Hann er formaður í flokki sem samkvæmt könnunum er stærsti flokkurinn. Það gæti vel farið svo, þó að það sé ekki endilega í mínum anda, að hv. þingmaður yrði forsætisráðherra að loknum kosningum. Þá finnst mér eðlilegt að ég spyrji hann: Hvaða afstöðu hefur hann til þessarar stöðu? Hún gæti nefnilega leitt af sér alls konar erfiðar afleiðingar.

Í fyrsta lagi. Hún gæti orðið til þess að stór hluti af innri markaðnum, það er Noregur og Liechtenstein, miklum samstarfsþjóðum okkar, jafnvel mikilvægari en okkur, yrði óvirkjaður vegna afstöðu hans. Hún gæti hugsanlega leitt til þess að við mundum neyðast til þess að fara út úr EES. Hvað ætlar hann þá að gera?

Hann sagði um daginn að þá skyldu menn skoða samninga, tvíhliða samninga, við Evrópusambandið. En fyrir liggur að ef eitthvað er í gadda slegið af hálfu þess er að það ætlar ekki að gera tvíhliða samninga við önnur ríki á borð við þá sem það hefur gert við Sviss, það er alveg ljóst.

Stefna formanns Sjálfstæðisflokksins gæti því hugsanlega leitt til þess að Ísland yrði efnahagslega á berangri. (Gripið fram í.) Þetta er mögulegt. Því tel ég svo mikilvægt að við eigum þessa orðræðu vegna þess að hann verður að vera klár á því hvert orð hans, ef aðgerðir fylgja þeim, geta leitt Ísland út af því eins og ég sagði áðan að hann er ekki neinn venjulegur þingmaður. (JónG: Þetta er bara „copy/paste“ frá Icesave-umræðunum um Svavars-samningana.) Þú ert bara kjáni, Jón.