141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[13:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Við umræðu um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál er óhjákvæmilegt að ræða töluvert um það mál sem hefur sett mark sitt á nánast öll utanríkis- og alþjóðamál Íslands á undanförnu ári, en ekki bara það heldur nánast öll stjórnmál á Íslandi, þ.e. umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Ég ætla hins vegar að byrja á því að grípa niður í skýrsluna á nokkrum stöðum og fjalla um önnur utanríkismál sem tengjast, eins og ég nefndi, flest á einn eða annan hátt stóra málinu, umsókninni um aðild að ESB. Þetta er allítarleg skýrsla svo að ég mun ekki ná að fara yfir alla málaflokka, en hef valið nokkra úr til þess að gera smávægilegar athugasemdir við.

Í fyrsta lagi er ánægjulegt að sjá að hæstv. ráðherra telji ástæðu til þess að leggja áfram áherslu á norðurslóðamál. Í þeim málaflokki er auðvitað mikilvægt að yfirlýsingum um mikilvægi norðurslóða sé fylgt eftir með aðgerðum sem eru í samræmi við það. Upp á það hefur hins vegar vantað, hugsanlega að einhverju leyti vegna þeirrar ofuráherslu sem hefur verið lögð á umsóknina um aðild að ESB. Svo koma reyndar aðrir þættir við sögu.

Það kom upp mjög sérkennileg umræða hér ekki alls fyrir löngu, sú umræða stendur raunar enn, um það að þrátt fyrir að búið væri að gefa út leyfi til gasleitar, olíuleitar og vinnslu á Drekasvæðinu, eins og stóð á forsíðu samninganna, er því haldið fram af hæstv. atvinnuvegaráðherra meðal annarra að þetta sé alveg sinn hvor hluturinn og að olíuleitin, jafnvel þó að hún beri árangur, feli ekki endilega í sér að ráðist verði í olíuvinnslu sem er auðvitað mjög undarlegur málflutningur. Slíkur málflutningur getur líka verið skaðlegur vegna þess að hann ýtir undir þá pólitísku óvissu sem hefur verið svo mikið vandamál á Íslandi á þessu kjörtímabili og dregur þar af leiðandi úr vilja manna til að fjárfesta í íslensku atvinnulífi þegar ekki er einu sinni ljóst að til standi af hálfu stjórnvalda að standa við þá samninga sem gerðir eru. Maður hefði talið augljóst að þegar gefið er út leyfi til olíuleitar og vinnslu mundi vinnslan fylgja ef olía finnst, að sjálfsögðu að uppfylltum öllum skilyrðum um öryggi og mengunarvarnir og fleira. Það segir sig sjálft að á öllum sviðum þurfa menn að uppfylla slík skilyrði þegar ráðist er í framkvæmdir.

Hitt sem ég vil nefna sérstaklega varðandi eftirfylgni í norðurslóðamálum er mikilvægi þess að hér séu byggðar upp þær grunnstoðir sem eru nauðsynlegar til að geta nýtt þau sóknarfæri sem liggja til dæmis í opnun siglingaleiða við norðurskautið. Að sjálfsögðu felst þetta til að byrja með fyrst og fremst í því skipulagi sem nauðsynlegt er til að ráðast svo í það verk að draga upp framtíðarsýn, getum við kallað það, um þessa hluti á mjög skýran hátt og undirbúa þannig að framkvæmdir geti hafist. Keppinautar okkar á þessu sviði sem eru nokkrir, m.a. í Noregi og í Kanada, eru þegar byrjaðir að undirbúa sig undir þessar breytingar og hafa ráðist í heilmiklar framkvæmdir til að geta tekið á móti til að mynda skipum sem sigla yfir norðurskautið svoleiðis að það er afskaplega mikilvægt að Íslendingar dragist ekki aftur úr í þessum efnum og verði tilbúnir í tæka tíð. Ef menn koma of seint er hættan sú og ekki bara hætta heldur mjög líklegt að erfitt verði að vinna það upp síðar þegar menn eru farnir að reiða sig á önnur lönd, t.d. varðandi umskipunarhafnir.

Ég legg áherslu á mikilvægi þess að menn fylgi eftir yfirlýsingu eins og birtist í þessari skýrslu um mikilvægi norðurslóða með skipulagningu og framkvæmdum.

Svo vildi ég gjarnan nefna aðeins lið sem er reyndar flokkaður hér undir undirlið 7.5.1. og kallast „Aðrir fríverslunarsamningar en á vegum EFTA“. Undir þessum undirlið er gerð fríverslunarsamnings við Kína sem er ekkert smámál. Kína er meira en tvöfalt fjölmennara en Evrópusambandið allt og ljóst að þar verður vöxtur mikill, ekki bara á næstu árum heldur áratugum og jafnvel öldum. Það er mjög áhugavert að Kínverjar skuli leggja jafnmikla áherslu og raun ber vitni á stjórnmálasamband við Ísland við gerð þessa fríverslunarsamnings. Eins og kemur fram í skýrslunni ganga þær viðræður ljómandi vel og vonir standa til að hægt verði að undirrita samning fljótlega. Slíkur samningur héldi reyndar ekki gildi sínu ef við gengjum í Evrópusambandið, en það er önnur saga. Kínverjar hafa í rauninni haft forustu um það að drífa þetta mál áfram. Það er jákvætt enda er, eins og ég kom inn á, Kína gríðarlega mikilvægur markaður til framtíðar.

Ég ætla að lesa dálitla klausu upp úr skýrslunni til að leggja áherslu á mikilvægi Kína til framtíðar sem samstarfslands og lands sem við munum eiga í auknum viðskiptum við, með leyfi forseta:

„Markmið með gerð fríverslunarsamningsins er fyrst og fremst að tryggja útflutningshagsmuni Íslands á þeim mikilvæga og ört vaxandi markaði sem Kína er. Til að mynda spáir Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) því að Kína muni hafa hæstan hagvöxt meðal allra helstu iðnvelda heims að minnsta kosti allt til ársins 2020. Jafnframt að hagvöxtur í Kína verði tæp 9% á tímabilinu frá 2012 til 2017 og 5,5% frá 2018 til 2030. Þá spáir stofnunin því að hagkerfi Kína muni leysa það bandaríska af hólmi sem stærsta hagkerfi heims árið 2017.“

Það eru ekki nema fjögur ár í það svoleiðis að það er afskaplega jákvætt að Íslendingar búi sig undir aukin viðskipti og auðvitað helst aukinn útflutning til Kína og efli þennan mikilvæga markað.

Það leiðir hugann að öðrum fríverslunarsamningum sem fjallað er um, ekki hvað síst samningum sem gerðir eru á vegum EFTA en þeim fer stöðugt fjölgandi. Í gegnum EFTA-samstarfið er Ísland búið að gera fríverslunarsamninga við lönd um allan heim, samninga sem munu gagnast okkur sérstaklega eftir að siglingaleiðirnar opnast. Ísland getur ekki bara orðið miðstöð flutninga heldur jafnvel framleiðslu með samsetningarverksmiðjum og slíku þar sem vörur eða hráefni yrðu flutt hingað og fullunnar vörur svo fluttar, ekki síst, til þeirra landa sem við höfum gert fríverslunarsamninga við.

Þá komum við að vandamálunum. Við skulum byrja á makríldeilunni, virðulegur forseti. Um hana er fjallað í skýrslunni, sem von er. Sú umfjöllun snýst að mestu leyti um að rekja atburðarásina sem er svo sem vel þekkt. Því er haldið til haga að málstaður Íslands sé mjög sterkur, eins og hann vissulega er, en hins vegar þykir manni vanta svolítið upp á pólitísku eindrægnina í þessum kafla samanborið við þær miklu pólitísku yfirlýsingar sem er að finna í kaflanum um samningaviðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þvert á móti er því haldið fram að öll strandríki beri sameiginlega ábyrgð á því að heildarveiði skuli vera umfram vísindaráðgjöf ef samkomulag næst ekki. Ég get ekki tekið undir þetta, virðulegur forseti, vegna þess að ef Ísland veiðir ekki meira en það hefur rétt til miðað við fyrirliggjandi gögn og alþjóðasamninga þá er ekki hægt að halda því fram að við berum ásamt Evrópusambandinu og Noregi ábyrgð á því að heildarveiðin sé umfram vísindaráðgjöf. Jafnframt vekur það dálitlar áhyggjur að í lok kaflans um makríldeiluna er því haldið fram að til þess að samningar náist þurfi allir deiluaðilar að gefa eftir. Er þetta yfirlýsing um það að við séum að veiða meira en tilefni er til, meira en við getum staðið fastir á? Vonandi ekki. Vonandi er þetta einhver misskilningur, enda hefur sá 16% hlutur sem Íslendingar hafa veitt árlega verið mjög varlega áætlaður miðað við fyrirliggjandi gögn um dreifingu makrílsins og hvernig hann fer hér yfir eins og engisprettufaraldur og étur frá öðrum dýrategundum.

Svo er óhjákvæmilegt að nefna aðeins Icesave-málið sem er auðvitað fjallað um í skýrslunni líka. Það verður eiginlega að setja það í samhengi við makríldeiluna og það sem ég ætla að koma hér inn á í lokin, umsóknina um aðild að Evrópusambandinu, vegna þess að þótt því hafi verið haldið fram að makríldeilan og umsóknin um aðild að ESB tengist ekkert og það sama hafi verið sagt um Icesave-deiluna og umsóknina um aðild að ESB hefur komið á daginn að sú var augljóslega ekki raunin. Jafnvel þótt Evrópusambandið hefði ekki verið að tengja þessi mál sérstaklega hlytum við að spyrja okkur: Ætti Ísland ekki að gera það? Er það ásættanlegt fyrir Ísland að sitja ekki bara undir hótunum og kúgunum heldur líka beinlínis árásum á tvennum vígstöðvum, að á sama tíma og við erum í viðræðum um að ganga inn í þetta samband þá skuli það beita okkur slíkum aðgerðum? Það getur ekki talist ásættanlegt. Þar af leiðandi hefði verið eðlilegt að stjórnvöld létu Evrópusambandið finna fyrir því að þau sættu sig ekki við slíka framgöngu og héldu ekki áfram viðræðum um aðild eins og ekkert hefði í skorist á meðan við sættum þessari framkomu af hálfu Evrópusambandsins.

Kaflinn um umsóknina að Evrópusambandinu, a.m.k. upphaf hans, virðist augljóslega ekki skrifaður af sömu embættismönnum og sumir aðrir kaflar þessarar skýrslu. Ég ætla að geta mér þess til að hæstv. ráðherra hafi sjálfur skrifað upphaf Evrópusambandskaflans. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Eitt meginmarkmið aðildar er að tryggja efnahagslegan stöðugleika með lágum vöxtum, lágri verðbólgu og lágu verðlagi, og skapa íslensku atvinnulífi og heimilum þannig trausta umgjörð. Vill Ísland vera áfram litla snjallríkið sem rær eitt á báti, ekur seglum eftir vindum og telur sig klárara en flestar aðrar þjóðir?“

Svo skömmu síðar:

„ESB snýst líka öðrum þræði um fullveldi Íslands og öryggi – hvort Íslandi farnist betur eitt á báti í ólgusjó þjóðanna eða vilji styrkja fullveldi sitt með því að deila því með öðrum þjóðum, eins og við höfum gert á öðrum sviðum.“

Hvers lags málflutningur er þetta eiginlega, virðulegur forseti?

Ég verð að taka það skýrt fram að mér finnst ekki viðeigandi að hæstv. ráðherra skuli tala með þessum hætti um eigið land í skýrslu um utanríkismál. Jafnframt eru þær forsendur sem hér eru lagðar til grundvallar margar hverjar rangar. Því er til dæmis haldið fram að aðild að Evrópusambandinu fæli í sér lægri vexti, lægri verðbólgu, lægra verðlag og afnám verðtryggingar. Hvað hefur á undanförnum árum bent til þess að sú yrði raunin? Hvað hefur evrukrísan sýnt ef ekki það að sameiginlegur gjaldmiðill tryggir ekki sömu vexti? Þvert á móti verða vextir að byggjast á efnahagsástandinu og undirliggjandi stærð í hverju landi. Hvað með matvælaverð? Nú sjáum við á gögnum frá Evrópusambandinu sjálfu, tölfræðistofnun þess, að matvælaverð er orðið með því lægsta hér á landi samanborið við Evrópusambandslöndin svoleiðis að forsendurnar sem hér eru lagðar til grundvallar fyrir því að það sé þess virði að deila fullveldinu með öðrum þjóðum, eins og það er orðað, eru rangar.

Því miður er tími minn á þrotum, virðulegur forseti. Það er mjög margt annað í (Forseti hringir.) kaflanum um umsókn um aðild að ESB sem er villandi og gefur tilefni til heilmikillar umræðu hér og athugasemda.