141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[13:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu tengjast þessi mál. Í rauninni var á sínum tíma furðulegt að hlusta á málflutning þess efnis að þau væru algjörlega ótengd þegar það blasti við hverjum manni að ekki væri hægt að vera í samningaviðræðum við Evrópusambandið og á sama tíma í mjög harðri deilu um mál sem varða hugsanlega aðild án þess að það væri tengt, enda hafa nú margir innan Evrópusambandsins verið duglegir að benda á þau tengsl eins og sjávarútvegsstjórinn sem hv. þingmaður vísaði til. Það er nú einmitt kjarni málsins að deila Íslands og Evrópusambandsins um makrílinn hlýtur að vera áminning um í hvaða stöðu við værum varðandi stjórn fiskveiða ef við værum orðnir aðilar að Evrópusambandinu. Dettur einhverjum í hug að Íslendingar fengju að veiða þau 16% sem þeir veiða nú ef þeir væru aðilar að ESB miðað við framkomu Evrópusambandsins? Augljóslega væri sú ekki raunin eins og kom fram í máli Damanaki og hv. þingmaður vitnaði til.

Í því liggur töluverð kaldhæðni vegna þess að hagvöxturinn sem ríkisstjórnin hefur státað sig af er m.a. til kominn vegna makrílveiðanna og vegna gjaldmiðilsins, vegna þess að fall á gengi krónunnar leiddi til aukins útflutnings og ekki hvað síst vegna aukins ferðamannastraums. Þeir þættir sem haldið hafa uppi hagvextinum þrátt fyrir stefnu þessarar ríkisstjórnar og algjöran skort á fjárfestingu eru hinir sömu og ríkisstjórnin vill losa okkur við með því að ganga inn í Evrópusambandið. Þá hefðum við ekki getað veitt þennan makríl og þá hefði gjaldmiðillinn ekki aukið útflutningstekjur (Forseti hringir.) okkar heldur þvert á móti sett okkur í sömu stöðu og Írland.