141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[13:59]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Andsvar hv. þingmanns var algjörlega út úr kú. Það hlýtur að stafa af því að hann hafi ekkert verið að hlusta á ræðu mína, enda var svarið ekki í neinu samræmi við það sem ég talaði um áðan. Ég lagði þvert á móti áherslu á mikilvægi þess að Ísland gæti nýtt auðlindir sínar innan alþjóðlegra samninga, innan þeirra reglna sem við höfum fallist á að fylgja.

Það er einmitt þess vegna sem við veiðum þó ekki nema þessi 16%, sem er ekki mikið miðað við fyrirliggjandi gögn. Við gætum í rauninni veitt miklu meira og verið innan allra reglna og skuldbindinga gagnvart alþjóðasamfélaginu svokallaða. En við erum ákaflega ábyrg fiskveiðiþjóð, Íslendingar, og förum varlega í því efni. Við höfum þess vegna ekki veitt nema þessi 16% og drógum úr veiði í samræmi við það sem Evrópusambandið og Noregur gerðu. Við drögum úr veiði okkar um 15% þannig að við höldum óbreyttu hlutfalli, sem er ekkert sérstaklega hátt hlutfall, eins og ég sagði áðan.

Andsvar hv. þingmanns var á misskilningi byggt, það var algjörlega óskiljanlegt. Líklega hefur hv. þingmaður bara verið að nota tækifærið til að komast í ræðustól og lýsa þeim vilja sínum að Íslendingar gefi meira eftir í makríldeilunni en þeir hafa gert fram að þessu.