141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:00]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fer algerlega í kringum hlutina. Hann sagði í ræðu sinni að við veiddum núna 16% og mátti skilja hann þannig að við mættum í raun veiða miklu meira innan alþjóðamarka. (SDG: Já.) Hversu mikið? (Gripið fram í.) Getur þingmaðurinn svarað því? Er þingmanninum ekki ljóst að öllum strandríkjum sem hlut eiga að máli ber skylda samkvæmt hafréttarsáttmálanum til að semja um skiptingu veiðinnar? Það bera allir ábyrgð í því, líka Íslendingar. Það var eins og þingmaðurinn hefði mótmælt því og sneri sér að utanríkisráðherra þegar hann sagði það.

Hv. þingmaður vísar líka til þess sem segir á bls. 76 í skýrslunni, að til þess að samningar geti náðst um makrílinn þurfi allir deiluaðilar að gefa eftir. Hv. þingmaður mótmælti því í raun í máli sínu. Er hann að segja að við eigum fyrst rétt til þess að taka það í okkar hlut sem okkur finnst sanngjarnt og svo eigi aðrir að semja um restina? Er það það sem hv. þingmaður á við? Það er ekki hægt að tala þannig. Við eigum að sjálfsögðu rétt til að nýta þessa auðlind, við eigum að gera það með ábyrgum sjálfbærum og framsýnum hætti, en við berum líka ábyrgð á því að það sé gert á grundvelli hafréttarsáttmálans, að við náum samkomulagi við önnur ríki.

Og við eigum að gæta makrílsins, frú forseti, líka formaður Framsóknarflokksins. Það skiptir okkur máli við auðlindanýtingu að við göngum ekki svo fram að við eyðileggjum auðlindina fyrir komandi kynslóðir. Það skiptir okkur máli. Sem ábyrg fiskveiðiþjóð má kannski segja að ábyrgðin sé þeim mun meiri vegna þess að við nýtum okkur það á alþjóðavettvangi. Sérþekking okkar á sjávarútvegsmálum, orðspor okkar sem ábyrgrar fiskveiðiþjóðar (Forseti hringir.) — það má ekki eyðileggja það.