141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:21]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Því miður missti ég af upphafsorðunum en síðari hlutinn gaf mér hins vegar nóg fóður til að koma upp í andsvar við hv. þingmann.

Mér þótti það sem hann sagði um tengsl makríldeilunnar og viðræðnanna um sjávarútvegskaflann við Evrópusambandið athyglisvert. Hv. þingmaður sagði það skoðun sína að við mundum ekki ljúka viðræðum um sjávarútvegskaflann á meðan makríldeilan væri óleyst. Hann sagði að menn gætu svo deilt um hvort þau mál væru tengd eða ekki. Ég ætla að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist. Eru málin tengd eða ekki? Og hvenær komst hann að þeirri niðurstöðu að sjávarútvegskaflinn yrði ekki kláraður fyrr en að makríldeilan væri leyst? Vegna þess að ég man ekki betur en að í fyrra, í aprílmánuði minnir mig, hafi hv. þingmaður átt orðaskipti við Barroso á fundi í útlöndum þar sem hann spurði einmitt um það og Barroso fullyrti, eins og svo margir hafa gert, að málin væru ótengd. Á hv. þingmaður að hafa sagt að gott væri að fá það á hreint af því að þá væri hans skoðun sú að best væri að leiða málið til lykta og klára viðræðurnar svo það þvældist ekki fyrir. Hvenær komst hv. þingmaður að þeirri nýju niðurstöðu?

Varðandi EES-samninginn og það sem hv. þingmaður nefndi um hvort við eigum að berja í borðið og berjast fyrir tveggja stoða kerfinu held ég að við eigum að gera það. Ég er þeirrar skoðunar að við höfum ekki gert nóg af því á síðastliðnum árum (Forseti hringir.) vegna þess að hugur ráðherranna sem hafa farið með þau mál hefur verið við Evrópusambandið (Forseti hringir.) en ekki EES-samninginn. Ég held að við ættum að fara að snúa okkur að því sem skiptir máli, berja í borðið og berjast fyrir tveggja stoða kerfinu.