141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég ítreka að við höfum áskilið okkur þennan rétt eins og ég gat um áðan. Að sjálfsögðu getur sú staða komið upp. Grundvöllurinn er auðvitað nefndarálit meiri hluta utanríkismálanefndar þar sem meginhagsmunum okkar í einstökum málaflokkum er lýst. Það hlýtur að vera það veganesti sem íslensk stjórnvöld hafa fengið frá Alþingi. (IllG: Hvað ef það næst ekki?) Ef það næst ekki geta menn staðið frammi fyrir þeirri stöðu að vera strand með viðræðurnar. Þá lít ég svo á að það sé stjórnvalda að koma til Alþingis og segja: Við höfum ekki komist áfram með þetta mál í samræmi við það sem ályktun Alþingis kvað á um. Hvað skal nú gera? Eigum við að hætta viðræðunum eða vill Alþingi breyta samningsafstöðunni? Það verður að vera Alþingi sem tekur þá ákvörðun. (Forseti hringir.)