141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:37]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Spurningin um afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu getur verið af ýmsum toga. Sumir hafa mjög bjargfasta sannfæringu í því máli, annaðhvort með eða móti aðild. Stór hluti þjóðarinnar hefur í könnunum látið í ljós það viðhorf að hann vilji vita hvað nákvæmlega felst í aðildinni með samningi og taka afstöðu á grundvelli þess. Þannig að einhverjir taka afstöðu til niðurstöðu í sjávarútvegsmálum, aðrir í landbúnaðarmálum, umhverfismálum og svo koll af kolli. Afstaða manna getur því verið mismunandi hvað þetta snertir. Mín afstaða er sú að hagsmunum okkar sé almennt betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Sú afstaða hefur ekki breyst. Ég tel það. Ég tel að okkur mundi farnast betur utan Evrópusambandsins en innan. Ég hef hins vegar allan tímann sagt að það eru líka kostir við aðild að Evrópusambandinu, ekki bara gallar. Ég hef metið gallana veigameiri en kostina, það hefur verið mín afstaða og er enn.

Mun ég greiða atkvæði með góðum aðildarsamningi? Þetta er hypótetísk spurning en ég geng út frá því að ég muni greiða atkvæði gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu komi málið einhvern tímann til þjóðaratkvæðagreiðslu og spurningin þar um. Ég hef hins vegar líka sagt að ég vilji ljúka aðildarviðræðunum þannig að það sé aðildarsamningur á borðinu þegar þjóðin tekur af skarið. Það er mín afstaða.

Svo ræddi þingmaðurinn sérstaklega fríverslunarsamning við Kína. Ég hef áður svarað þingmanninum hvað þetta atriði varðar. Ég tel að við hættum að sjálfsögðu ekki að reka utanríkisþjónustu okkar og utanríkisstefnu okkar þótt við séum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, þar með talið utanríkisviðskipti við aðrar þjóðir. Þannig að ég tel eðlilegt að við stöndum (Forseti hringir.) í fríverslunarsamningum við Kína því að skuldbindingar okkar eru þar, t.d. vegna fríverslunarsamninga innan EFTA, jafnvel þó að við séum í viðræðum við Evrópusambandið.