141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:54]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að umsókn um aðild að Evrópusambandinu fór í gang þvert á stefnu VG og einnig tel ég að velflestir þingmenn hafi einmitt talað mjög afdráttarlaust í þeim málum í aðdraganda kosninga, eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason. Eins og hv. þingmaður rakti þá var þetta eitt stærsta mál VG og eitt af stofnmálum flokksins á sínum tíma. Það að við erum búin að vera hér í nærri fjögur ár með Evrópusambandsumsókn í gangi og verja til þess milljörðum króna — hún er líka opin til næstu ára því að í fjárlögum fyrir yfirstandandi ár og áfram er ráðgert að veita milljarða króna áfram í Evrópusambandsumsókn. Ég verð bara að segja, af því að hv. þingmaður spyr, nei, verkin verða að tala. Orð eða yfirlýsingar í þessum (Forseti hringir.) efnum um að maður ætli að gera þetta eða hitt held ég að séu afar lítils virði (Forseti hringir.) gagnvart þjóðinni. Verkin verða að tala og ef maður ætlar að stöðva (Forseti hringir.) Evrópusambandsumsóknina og kalla hana aftur til baka (Forseti hringir.) þá á að gera það í verki en ekki (Forseti hringir.) bara með einhverjum loforðum inn í framtíðina.

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn að virða tímamörk og þreytist seint á að hvetja menn til að gera það, enda ber þeim.)