141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:56]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það hlé sem var gert núna á viðræðunum við Evrópusambandið byggist á því að halda á áfram allri vinnu við umsóknina. Það á að halda áfram með þá kafla sem eru opnir. Maður heyrir það innan úr utanríkisráðuneytinu að hlegið sé að þessu hléi og að menn séu að gantast með að nú sé slegið hægar á lyklaborðið og flugvélarnar til Brussel fljúgi hægar. Eins og allir vita stóð ekki til að opna neina nýja kafla núna að vorinu til, þannig að í rauninni er þetta hlé sýndarleikur einn.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvað hann telji að Vinstri grænir þurfi að gera til þess að öðlast trúverðugleika í þessu máli. Það liggur ljóst fyrir að fólk treystir því ekki sem forusta flokksins segir. Svikin eru svo mikil í þessu máli. Hvað þarf VG að gera? Dugar það sýndarhlé sem sett var af hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. atvinnuvegaráðherra (Forseti hringir.) eða verðum við ekki að ganga lengra og hvað þarf þá að gerast?