141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:59]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti,. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem var upplýsandi. Hv. þingmaður hefur auðvitað komið mjög mikið að málinu og verið virkur þátttakandi í því samningaferli sem ráðherra mjög mikilvægra málaflokka.

Þegar við förum yfir landbúnaðarkaflann sérstaklega finnst mér blasa við að í raun og veru er ekki um neitt að semja vegna þess að staðan er svo klár. Þar höfum við annars vegar íslenskt landbúnaðarkerfi og hins vegar evrópska landbúnaðarkerfið og þau eru algjörlega ósamrýmanleg. Það er því alveg ljóst mál að ef við erum aðilar að Evrópusambandinu hljótum við að þurfa að taka upp landbúnaðarkerfi Evrópusambandsins, þannig hlýtur það að vera.

Þá spyr ég: Er um nokkuð að semja? Ég vil spyrja hv. þingmann að því.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann sem hefur fylgt sjónarmiðum sínum í þeim efnum mjög fast eftir: Hefur orðið breyting á eftir að hann fór úr ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra? Hefur verið slegið undan að einhverju leyti? Hv. þingmaður kom fram og tók til dæmis undir varnarlínur Bændasamtakanna, hefur hv. þingmaður orðið var við að (Forseti hringir.) því sjónarmiði hans sé fylgt eftir og hvort það sé sjónarmið ríkisstjórnarinnar?