141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:00]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að í Evrópusambandsumsókn er í rauninni ekkert sem heitir, annaðhvort bara tekur maður pakkann eða er ekki með.

Ég lagði til, og fleiri voru reyndar þeirrar skoðunar, að í byrjun ferlisins sæktum við beint um undanþágu fyrir landbúnaðarkaflann í heild þannig að landbúnaðurinn sem slíkur væri undanþeginn í þeim efnum. Hann er svo frábrugðinn því sem er í Evrópuríkjunum að það hefði verið í hæsta máta eðlilegt. Það hefði ég viljað gera en það var ekki gert. Það er því í raun alveg hárrétt, það er ekkert um að aðlaga sig að kerfi Evrópusambandsins enda hefur Evrópusambandið sett kröfuna í þeim efnum skýrt fram.

Jú, hv. þingmaður, ég var settur út úr ráðuneytinu á sínum tíma vegna þess að ég vildi ekki gefa eftir. Ég vildi ekki gefa eftir í matvælalöggjöfinni, ég vildi ekki leyfa frjálsan innflutning á hráu og ófrosnu kjöti. Ég vildi ekki leyfa innflutning á lifandi dýrum. Ég vildi ekki aðlaga íslenskt landbúnaðarkerfi (Forseti hringir.) að Evrópusambandinu áður en búið væri að minnsta kosti að greiða atkvæði þar um og því hafði ég lofað Bændasamtökunum, það er alveg hárrétt.