141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og þeir vestfirsku galdramenn sem hv. þingmaður er sprottinn af er hann meistari blekkinganna. Hann gleymdi að geta þess að í bréfinu kemur fram að beðið er um tímasetta áætlun frá þeim degi sem íslenska þjóðin hefur goldið jáyrði og þar af leiðandi samþykkt inngöngu í Evrópusambandið fram að fullgildingu, þ.e. þess dags þegar Ísland yrði aðili að sambandinu.

Með öðrum orðum, hin tímasetta áætlun átti að sýna fram á hvernig Íslendingar ætluðu sér að hrinda í framkvæmd þeim breytingum sem um semdist eftir að þjóðin hefði sagt já og fram að því að aðild tæki gildi. Það er ekkert að því. Ekki bara það heldur var það svo að það var samkvæmt sérstakri samþykkt ríkisstjórnarinnar að heimila samningahópnum um landbúnað að gefa slíka yfirlýsingu og yfirlýsing hv. þingmanns liggur fyrir um að samningahópurinn eða formaður hans hafi ekki farið ekki út fyrir umboðið sem hann hafði þegar hann gerði það.