141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:10]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ástæðan sé sú að í sjálfu sér ber gríðarlega í milli þeirrar umgjarðar sem sjávarútvegurinn í Evrópusambandslöndunum býr við og umgjarðarinnar á Íslandi. Þar eru líka stærstu átökin um fullveldisframsalið. Hvaða flokkar hér vildu fara í kosningabaráttu nú með það uppi á borðinu að menn yrðu að gefa eftir fullveldið, að menn yrðu að gefa eftir sjálfsstjórnarréttindin á fiskveiðilögsögu landsins? Það mundi enginn þora það.

Þess vegna er sá kafli settur eins og hann er. Að mínu mati ætti sjávarútvegurinn einn að vera næg forsenda fyrir því að menn hefðu aldrei hafið þessa vegferð því að sjávarútvegurinn okkar, auðlindin í fiskveiðilögsögunni í sjónum, er eitt af grundvallaratriðum fyrir atvinnu, efnahag og sjálfstæði þjóðarinnar og um það má aldrei véla. Makríllinn er blessunarlega á ferðinni þarna, alveg eins og í Noregi, en menn héldu að það hefði verið makríllinn við Noreg (Forseti hringir.) sem felldi Evrópusambandsumsókn Norðmanna á sínum tíma og það er ágætt ef hann verður til þess sama hér.