141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:13]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega alveg ljóst að það var ágreiningur um aðlögunarferlið, hversu hratt ætti að fara í aðlögunina og hvernig. Ég hafnaði því algjörlega að við færum í aðlögun. (Utanrrh.: Það gerði ég líka.) Já, það var nú býsna loðið og skilgreiningaratriði. (Utanrrh.: Nei. Algjörlega skýrt.) Hins vegar má utanríkisráðherra eiga það að hann talaði yfirleitt hreint út. Hann var fylgjandi aðild að Evrópusambandinu en aðrir ráðherrar, og þar á meðal minn ráðherra, talaði ekki svo skýrt, (Gripið fram í.) það er alveg hárrétt.

Það var því deila um hvað ætti að gefa mikið eftir strax í upphafi og alltaf í landbúnaðarmálum, það er alveg hárrétt. Þannig var það líka í sjávarútvegsmálum. Ég var svo heppinn að gefa út makrílkvótann daginn sem ég var látinn víkja úr ráðherrastól og batt þar með ríkisstjórnina áfram til næsta árs því að enginn þorir að lækka makrílkvótann á tímabilinu, en ég vissi, og það var alveg rökstudd ákvörðun, að það mundi (Forseti hringir.) að sjálfsögðu hafa slæm áhrif á Evrópusambandið og þeir mundu vera með alls konar hótanir. (Forseti hringir.) Það er alveg hárrétt, ég hef staðið á íslenskum hagsmunum í þessu (Forseti hringir.) og ég er stoltur af því.