141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Nú er staðreyndin sú að gríðarleg andstaða er við Evrópusambandsaðild úti í samfélaginu. Nýlegar kannanir sýna að innan við fjórðungur þjóðarinnar er fylgjandi aðild.

Samfylkingin fór af stað með þetta mál eftir síðustu kosningar, fékk Vinstri græna til liðs við sig þvert á yfirlýsingar forustumanna flokksins fyrir síðustu alþingiskosningar — og hver hefur reyndin orðið? VG er að þurrkast út og það er alveg ljóst að yfirgnæfandi líkur eru á því að eftir næstu alþingiskosningar — þetta hafa menn eins og Egill Helgason ítrekað bent á í pistlum á vefsíðu sinni — verði meiri andstaða við Evrópusambandið hér á þingi og meira í samhljómi við það sem er úti í þjóðfélaginu. Ítrekaðar skoðanakannanir sýna líka að minni hluti er fyrir því að halda þessum viðræðum áfram.

Flokkur sem ber nafnið Björt framtíð býður fram til Alþingis í vor og hefur það á stefnuskrá sinni, rétt eins og Samfylkingin, að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Mörgum hefur fundist að kannski sé ekki mjög mikill munur á þessum tveimur stjórnmálahreyfingum. Báðar hafa þær á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Margir hafa velt því fyrir sér hver munurinn sé á þessum flokkum að öðru leyti eða hvort það hafi verið úthugsað bragð af hálfu Samfylkingarinnar að bjóða fram hliðarflokk undir nýju nafni og með nýtt merki en á sama grunni. Ég spyr hv. þingmann: Hver er í grunninn munurinn á stefnu þessara tveggja stjórnmálahreyfinga, Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar, í öðrum málum en er varða þetta eina stóra mál Samfylkingarinnar, Evrópusambandsaðild?