141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir hv. þingmaður taka stórt upp í sig, ef ég má orða það svo. Hann lauk máli sínu með því að segja að enginn ábyrgur stjórnmálaflokkur muni slíta viðræðum við Evrópusambandið eftir kosningar. Þetta er sami maðurinn og kemur hingað oft og ítrekað, og gott ef hann gerði það ekki í ræðu sinni áðan, og talar um að lúta þjóðarvilja, hlusta á þjóðina, leyfa þjóðinni að ráða. Samt treystir hann ekki þjóðinni til að taka ákvörðun akkúrat á þessum tímapunkti. Hann treysti heldur ekki þjóðinni til að taka ákvörðun þegar sótt var um og ákveðið með bolabrögðum við atkvæðagreiðslu, eins og allir þekkja, að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þá var hann ekki tilbúinn að spyrja þjóðina af því að þjóðin hefði örugglega ekki vit á því hvort sækja ætti um aðild eða ekki.

Síðan heldur þessi sami hv. þingmaður því fram að kannanir sýni að meiri hluti þjóðarinnar vilji halda áfram viðræðum. Ég vil bara upplýsa hv. þingmann um að síðustu kannanir benda þvert á móti til hins gagnstæða. Samkvæmt könnunum vill meiri hluti íslensku þjóðarinnar annaðhvort leggja viðræðurnar til hliðar eða slíta þeim. Þá er alveg sama þótt hv. þingmaður segi það hér aftur og aftur og Fréttablaðið reyni að snúa út úr með villandi fyrirsögnum, þetta er niðurstaða þessara kannana sem styst er síðan að hafa birst um þetta mál.

Ég spyr hv. þingmann: Hvað þarf til til að þingmaðurinn fari að hlusta á þjóðarvilja? Hvað þarf að gerast til að þingmaðurinn átti sig á því að skoðanir varðandi þetta mál hafa breyst? (Forseti hringir.) Og af hverju er þá ekki bara einfaldast, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) að leyfa þjóðinni að greiða atkvæði um hvort halda skuli áfram eða ekki? Við hvað er þingmaðurinn hræddur?