141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:41]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Áður en ég missi hv. þm. Helga Hjörvar úr salnum vil ég koma því á framfæri að mér leiðist óskaplega þetta tal sem lagt er upp með í undirbúningi að kosningabaráttu Samfylkingarinnar, að nú skulum við keyra á ESB. Það er það sem aðgreinir okkur og í einhverjum frústrasjónum og vonbrigðum með fylgistölur í skoðanakönnunum er þetta eina atriðið. Allt í lagi, Samfylkingin má hafa þá stefnu mín vegna. En mér leiðist óskaplega að hlusta á hvernig talað er um Ísland og íslenska þjóð í því samhengi, eins og við séum hálfgerðir aumingjar, búum við einangrun og ósjálfstæði. Hvaða vitleysa er þetta? Við erum fullvalda, ríki, sjálfstæð þjóð sem hefur öll tækifæri og höfum sýnt það með þennan vonlausa gjaldmiðil, sem menn þreytast ekki á að tala niður, að hér getur ríkt mikil hagsæld. Ég leyfi mér að fullyrða að sá landflótti og það atvinnuleysi og skortur á fjárfestingum sem þingmaðurinn nefndi í andsvari sínu áðan hefur meira með ömurlega ríkisstjórn að gera en ömurlegan gjaldmiðil. Þá hef ég komið þeim pirringi frá mér og ætla ekki að eyða meiri tíma í hann.

Virðulegi forseti. Ég þakka eins og aðrir hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna, en það er ómögulegt að ræða um svo viðamikið mál af einhverju viti í 10 mínútna ræðu. Alltaf er það þannig að Evrópumálin taka allt yfir. Ég ætla því ekki að ræða um Evrópska efnahagssvæðið vegna þess að hv. þm. Bjarni Benediktsson lýsti vel þeim sjónarmiðum sem ég hef þar fram að færa. Mig langar aðeins að ræða um önnur atriði og ætla að byrja á loftrýmisgæslunni. Andsvar og orðaskipti hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur við hæstv. utanríkisráðherra vöktu nefnilega athygli mína. Í upphafi umræðunnar las hv. þingmaður upp úr stjórnarsáttmálanum og spurði hæstv. ráðherra hvort hæstv. utanríkisráðherra hefði vikið frá stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um það atriði. Hæstv. ráðherra vísaði til þess að málið væri til umfjöllunar í nefnd um þjóðaröryggi. Ég þurfti að kíkja aftur á það sem ég hafði lesið um loftrýmisgæsluna og það var kaflinn sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir ræddi um og las upp úr, að allt hefði gengið eftir áætlun og væri mikilvægur liður í öryggis- og varnarstefnu landsins og vegna þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu. Ég tek undir það og er sammála því.

Síðan er annað sem rætt hefur verið varðandi loftrýmisgæsluna, það er möguleg þátttaka Svíþjóðar og Finnlands í því og höfum við heyrt hvernig einstaka þingmenn í Vinstri grænum hafa brugðist við því, þar á meðal formaður hv. utanríkismálanefndar sem lýsir sig andvígan því. Ég missti því miður af þeim hluta ræðu hans áðan þar sem mér skilst að hann hafi verið að gagnrýna loftrýmisgæsluna.

Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort ég hafi tekið rétt eftir því í svari hans við fyrirspurn hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur að hann vísaði ábyrgð á því hvað yrði um loftrýmisgæsluna til þjóðaröryggisnefndarinnar. Mér heyrðist það og það vakti hjá mér spurningar um þá nefnd, sem ég á reyndar sæti í. Við höfum átt erfitt með að finna fundartíma í annríki þingstarfanna til að skoða ákveðið plagg sem liggur fyrir, að klára það mál. Það á svo eftir að koma í ljós hvort okkur tekst að ná sameiginlegri niðurstöðu. Ég hef skilið verkefni okkar þannig að við eigum að skila tillögum til hæstv. ráðherra sem hann notar síðan til að semja þjóðaröryggisstefnu. Ég hef lýst því yfir og get alveg gert það aftur að ég er ekki tilbúin að gera ákveðnar málamiðlanir í plaggi um þjóðaröryggi Íslands. Það snertir það sem ég og hæstv. ráðherra erum sammála um, aðildina að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamninginn við Bandaríkin. Ég tel það áfram eiga að vera hornsteinana í öryggis- og varnarpólitík okkar, en það á eftir að koma í ljós.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í loftrýmisgæsluna. Það er von að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir spyrji vegna þess að það eina sem gerst hefur nýtt varðandi loftrýmisgæsluna á þessu kjörtímabili, í tíð fyrstu tæru vinstri stjórnarinnar, er að fleiri ríkjum hefur verið boðin aðild að loftrýmisgæslunni. Er það ekki rétt munað hjá mér, hæstv. ráðherra, að Íslendingar óskuðu eftir því við Finna og Svía að þeir kæmu inn í það samstarf? Útvíkkun loftrýmisgæslunnar hefur því verið á dagskrá ríkisstjórnarinnar en ekki það verkefni að endurmeta hana og hætta henni, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir minnti hæstv. ráðherra á í andsvar sínu.

Ég spurði hæstv. ráðherra áðan í andsvari út í stjórnarskrána og það snertir aftur aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu. Ég verð að segja að ég var ekki nógu ánægð með svör hæstv. ráðherra en í þeim fólst misræmi sem mér þykir gæta hjá honum. Hæstv. ráðherra fagnaði því að hægt væri að leita álits þingsins í málefnum eins og varðandi Líbíu, væntanlega til að byggja undir ákvörðun hans. Hæstv. ráðherra hefur sagt það hér að hann hafi metið það svo, ekki með atkvæðagreiðslu heldur eftir umræður á þinginu, að hann hafi haft stuðning meiri hluta þingsins. Hann lét aldrei reyna á það í atkvæðagreiðslu og það kom fram í fyrirspurn þeirrar sem hér stendur til hæstv. atvinnuvegaráðherra, formanns Vinstri grænna, Steingríms J. Sigfússonar, að hann hafi ekki verið samþykkur því en hann hafi ekki verið spurður.

Ég leyfi mér að efast um það. Ég verð alveg að viðurkenna að það hefði verið skemmtileg reynsla að verða vitni að því að þingið hefði verið látið taka afstöðu til þeirrar ákvörðunar Norður-Atlantshafsráðsins um að fara inn í Líbíu. Það hefði tekið margra daga viðræður á þinginu, ég leyfi mér að segja það, og endað með atkvæðagreiðslu um málið, sem ég veit að hæstv. utanríkisráðherra getur ekki einu sinni spáð fyrir um hvernig hefði endað (Utanrrh.: Um Líbíu?) vegna þess að samstarfsflokkurinn hefur greinilega látið í ljós þá skoðun sína að hann sé á móti því.

Þá vil ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra varðandi stjórnarskrárbreytingarnar. Finnst hæstv. ráðherra það ábyrgt af sér sem stuðningsmanni aðildar okkar að Atlantshafsbandalaginu, sem utanríkisráðherra sem fer með atkvæði okkar, eða fulltrúi hans í Norður-Atlantshafsráðinu, þar sem hæstv. utanríkisráðherra veit að þarf stundum að taka ákvarðanir með stuttum fyrirvara? Ekkert annað aðildarríki bandalagsins fer með slíkt ákvæði og verið er að reyna að setja í nýja íslenska stjórnarskrá þess efnis að ef til beitingar vopnavalds kemur, jafnvel innan þeirra alþjóðasamtaka sem við eigum aðild að, þurfi samþykki Alþingis. Það tel ég, og margir sérfræðingar eru mér sammála um það, að gæti valdið uppnámi í aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu.

Mér fannst formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og þjóðaröryggisnefndar opinbera vanþekkingu sína þegar hún svaraði eftirfarandi í umræðum um stjórnarskrána: (Forseti hringir.) Þessar ákvarðanir hafa verið í umræðunni (Forseti hringir.) lengi.

Ég segi nei. Þessar ákvarðanir eru teknar í lokuðu herbergi, maður þarf að skilja símann eftir frammi og (Forseti hringir.) sem minnst á að fréttast út fyrir herbergið. Ég verð (Forseti hringir.) að fá svör og viðbrögð hæstv. ráðherra við því.