141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég treysti mér ekki til að fullyrða um hvort þeir sérfræðingar sem hv. þingmaður vísar til hafi rangt fyrir sér í því efni. Hitt liggur alveg kýrskýrt fyrir í mínum huga, og kann vel að vera að einhver sé mér ósammála, að ef um það er að ræða að öryggisráðið hafi samþykkt einhverjar aðgerðir sem þar með hafa atbeina Sameinuðu þjóðanna er íslenskum stjórnvöldum, að þessari breytingartillögu við stjórnarskrána samþykktri, heimilt að ljá jáyrði við þeirri aðgerð. Það er skoðun mín. Menn verða þá að sýna mér fram á að það sé rangt. En við höfum skyldu til að fara að ályktunum öryggisráðsins og þess vegna tel ég að í ljósi þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem við höfum axlað með aðild að Sameinuðu þjóðunum hafi sérhvert íslenskt stjórnvald heimild til að taka slíka ákvörðun.

Nú er það til að taka að núverandi framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, Anders Fogh Rasmussen, hefur sagt að hann sé ófús til að samþykkja að bandalagið ráðist í aðgerðir sem ekki hafa slíkan alþjóðlegan atbeina og öryggisráðsins. Þess vegna kom það ekki til greina að Atlantshafsbandalagið léti t.d. til skarar skríða vegna Sýrlands, ekki heldur þegar upp kom að mögulegt væri að þar væru efnavopn sem menn töldu sig hafa sönnur á að verið væri að flytja þangað til að hægt yrði að beita þeim. Það var rætt og menn komust að þeirri niðurstöðu að rangt væri af bandalaginu að ráðast til slíkra aðgerða vegna þess að þjóðir sem sæti eiga í öryggisráðinu beittu neitunarvaldi.