141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[16:09]
Horfa

Arndís Soffía Sigurðardóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið. Það er alveg hárrétt sem kemur fram í andsvari hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur að við erum ekki ýkja ósammála í afstöðu okkar til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Hún spyr hvernig ég mundi vilja sjá þessa hluti. Í fullkomnum heimi hefði ég viljað sjá það sem rætt var fyrir kosningar síðast, þ.e. að farið hefði fram tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla. Hins vegar á ég ekki tímavél og get engu breytt um það að ekki var farið í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef vakið máls á því opinberlega að mér þyki í rauninni ekki orðið of seint að halda þá þjóðaratkvæðagreiðslu. Í draumi mínum hefði ég viljað sjá atkvæðagreiðslu fara fram með næstu þingkosningum en ég er ansi hrædd um að sá draumur sé úti héðan af. Um næstu helgi fer fram landsfundur Vinstri grænna og ég vænti þess — flokksráðsfundurinn gaf alla vega þau skilaboð til landsfundar — að línur verði skerptar þar. Ég vil sjá greidd atkvæði um þessar aðildarviðræður, að þjóðin fái að greiða atkvæði um það ef halda á áfram með þessar aðildarviðræður.