141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[16:11]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og fagna því að hún lýsir skoðun sinni. Nú verð ég að hvetja hana til dáða á komandi fundi innan hennar hreyfingar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Mér þætti gaman að sjá það.

Ég horfi á hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson. Við vorum ásamt þremur öðrum þingmönnum í utanríkismálanefnd með tillögu til að leggja fyrir þingið. Ég held að það sé full ástæða til að dusta rykið af þeirri tillögu. Við gætum kannski hinkrað eftir landsfundi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og landsfundi flokksins míns.

Í ályktun að drögum sem liggja fyrir fundinum er sú stefna áréttuð að leggja það í dóm þjóðarinnar að gera hlé á viðræðunum og hefja þær ekki að nýju fyrr en þjóðin hefur tekið afstöðu til þess. Framsóknarflokkurinn var með nánast samhljóða ályktun, ef mig misminnir ekki, á flokksþingi sínu og ef Vinstri hreyfingin – grænt framboð tekur af skarið á fundi sínum tel ég skynsamlegt af okkur sem erum þessarar skoðunar að leggja þá tillögu aftur fram hér fyrir þinglok. Hvort kosið verði samhliða þingkosningum — ég er sammála hv. þingmanni um að tíminn er orðinn knappur en ef vilji þingsins kemur fram þarf að minnsta kosti einhver að rjúfa það hlé með því að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Það þarf þá einhver að vera tilbúinn til þess að bera Evrópusambandsaðildarumsókn upp á nýju þingi (Forseti hringir.) til þess að rjúfa það hlé. (Forseti hringir.) Ég fagna því orðum hv. þingmanns.