141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[16:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir kynningarræðu hans og skýrsluna. Ég verð að segja að inngangur ráðherrans að skýrslunni er afar skemmtileg lesning, ég er ekki endilega sammála nálguninni en það er margt mjög athyglisvert í þessum inngangi og sumt fær mann meira að segja til að brosa þó nokkuð mikið og hæli ég ráðherranum fyrir vel skrifaðan inngang. Þetta er alveg til fyrirmyndar, hæstv. ráðherra. (Gripið fram í.) En ég ætla nú kannski ekki að segja, svo að hæstv. ráðherra grípi nú ekki fram í, að inngangurinn sé það besta við skýrsluna en það er margt gott í henni. Inngangurinn er ágætur. Það er líka að sjálfsögðu margt sem þarf að gera athugasemdir við. (Gripið fram í: Ekki í innganginum.) Ekki í innganginum, það er rétt, hann er afar fínn.

Varðandi hlutverk utanríkisráðuneytisins vil ég í upphafi segja að ég hygg að það væri hollt fyrir margan þingmanninn að sitja eins og einn vetur í utanríkismálanefnd og kynna sér utanríkismálin og utanríkisþjónustuna. Ég held að við sem sökkvum okkur ofan í vinnu sem tengist utanríkismálum skiljum mjög fljótt mikilvægi þess að öflug utanríkisþjónusta sé rekin af Íslands hálfu. Þar af leiðandi held ég að mikilvægt sé fyrir okkur að fara varlega, í það minnsta, í að veikja þann grunn sem við byggjum okkar þjónustu á, þó svo að ugglaust megi hafa alls konar skoðanir á því hvort hagræða megi eða eitthvað svoleiðis. Í grunninn þurfum við að reka öfluga utanríkisþjónustu.

Fyrstu kaflar þessarar skýrslu lúta að borgaraþjónustu og norðurslóðum og nærsvæði. Það er hægt að taka undir að eitt af mikilvægustu málunum á næstu árum eru væntanlega norðurslóðirnar og málefni er snúa að þeim. Þá skiptir líka máli að sú borgaralega þjónusta sem við veitum verði áfram öflug því að að sjálfsögðu skiptir miklu að Íslendingar sem þurfa að leita til utanríkisþjónustunnar geti fengið skjóta lausn á þeim málum sem þeir þurfa á að halda. Það er alveg ljóst að fleiri beina augum sínum að norðurslóðum en Íslendingar og skiptir miklu máli að við verðum með öflugt lið til að fylgjast með og taka þátt í því sem þar fer fram.

Það er einnig rætt um alþjóðaöryggismál í skýrslunni og þar vil ég árétta að mikilvægt er fyrir Íslendinga að taka áfram þátt í því samstarfi sem við höfum átt á þessum grunni. Ég tel einsýnt að við munum áfram vera hluti af Atlantshafsbandalaginu þar sem við erum í dag og munum byggja varnir okkar og aðstoð við erlend ríki þegar á þarf að halda í gegnum þá samvinnu og samning. Einnig er að sjálfsögðu mikilvægt fyrir okkur að efla áfram samstarf við okkar sem byggir á tvíhliða samningnum við Bandaríkin.

Hér er fjallað um alþjóðlega þróunarsamvinnu og þar höfum við reynt að leggja okkar af mörkum og ljóst að sú áætlun sem þar er uppi er mjög metnaðarfull. Það er eðlilegt að menn stefni að því að vera ekki eftirbátar annarra ríkja þegar kemur að alþjóðlegri þróunarsamvinnu.

Síðan er rætt um alþjóðlegt viðskiptasamstarf og þar vil ég fagna þeim fréttum sem við höfum heyrt af gangi viðræðna um fríverslunarsamning við Kína og einnig nefndi hæstv. ráðherra Indland. Það er mikilvægt fyrir okkur að reyna að gera sem flesta viðskiptasamninga, það er Íslandi til hagsbóta og undirstrikar í raun getu Íslands og markmið um að vera sjálfstætt ríki og nýta til þess það sem við höfum til að gera samninga við önnur ríki. Það er kosturinn við Ísland og stöðu Íslands, það sem við höfum fram að færa gerir okkur kleift að standa sjálfstæð og semja við hvort sem það er Kína, Indland eða Bandaríkin. Ég hef mikinn hug á því að það náist í nálægri framtíð að gera samning við Bandaríkin, en ég geri mér grein fyrir að það er flókið mál að gera fríverslunarsamninga. Við erum líka innan EFTA og þar fylgjum við að sjálfsögðu þegar gerðir eru samningar þar og annað þess háttar.

Hér er nokkuð fjallað um rekstur utanríkisþjónustunnar og þann samdrátt eða hagræðingu sem þar hefur átt sér stað. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að það kann að vera að hægt sé að hagræða og spara einhvers staðar í ríkisgeiranum, þar með talið utanríkisþjónustunni, en við megum passa okkur á því að ganga ekki svo langt að við einangrum okkur í þessu starfi. Við gengum of langt í niðurskurði í heilbrigðisþjónustu í kringum landið, gengum allt of langt, menn verða að passa sig.

Ég ætla að nefna að Ísland er að sjálfsögðu eitt af þeim ríkjum sem er með skrifstofu í New York og er hlustað á hjá Sameinuðu þjóðunum og ég held að það sé góð vinna sem þar fer fram eins og víðar í utanríkisþjónustu okkar. Ég var þess aðnjótandi að koma til Kanada í haust og hitta sendifulltrúa okkar í Ottawa og í Winnipeg. Það er gaman að heyra, svo ég segi það nú, hversu vel er talað um starfsmenn okkar og starfsfólk á þessum stöðum.

Varðandi Evrópusambandið þá veltir maður því fyrir sér þegar maður les þessa skýrslu og fer að hugsa eins og svo oft áður þegar við ræðum það mál í þessum sal eða í utanríkismálanefnd, reyndar ræðum við það kannski of sjaldan í þessum sal hér, að það er alveg ljóst að töluvert mikill meiningarmunur er um það á hvaða leið við erum, hvernig eigi að standa að viðræðunum við Evrópusambandið og hvort við eigum að vera í þeim yfirleitt. Það er með ólíkindum að mínu viti að sjá að svo virðist sem allsherjarlausn þeirra sem vilja ganga í Evrópusambandið á öllum okkar vandamálum sé sú innganga. Í því felst gríðarleg blekking.

Við sjáum í fyrsta lagi ekkert hvert Evrópusambandið stefnir í raun. Það Evrópusamband sem sumir vilja ganga í í dag er ekki það Evrópusamband sem verður við lýði á morgun jafnvel eða hinn. Svo eigum við alltaf að huga að því líka að samkvæmt öllum nýjustu könnunum hefur íslensk þjóð ekki áhuga á að ganga í Evrópusambandið. Það sem mér þótti merkilegt, ef satt er, er að það séu fleiri innan Samfylkingar sem vilja ekki ganga í Evrópusambandið en eru innan Framsóknarflokks og vilja ganga í Evrópusambandið. Þá held ég að sé gott að senda því ágæta fólki stefnuskrá Framsóknarflokksins. Þar gæti verið eitthvað sem hugnast þeim vel.

Það hefur komið fram og er gert góðlátlegt grín að því í inngangi hæstv. utanríkisráðherra að skýrslunni að Bretar séu eitthvað að móast við varðandi Evrópusambandið. En það lýsir ástandinu kannski best að stórþjóð eins og Bretar skuli yfirleitt vera að velta því fyrir sér í hvaða átt Evrópusambandið sé að þróast og hvort þeir eigi heima þar áfram.

Ég ætla bara að nefna það — ég held að ég nefni það í hverri einustu ræðu minni um Evrópusambandið — að það kemur fram í upplýsingum frá Evrópusambandinu sjálfu að það sé rangt að tala um samningaviðræður. Þeir segja í upplýsingabæklingi sínum að það sé rangt að gefa til kynna að hægt sé að semja um eitthvað. Slík nálgun er því frá þeim komin.

Ég vil að endingu nefna EES-samstarfið. EES-samstarfið er Íslendingum býsna mikilvægt en það er nú einu sinni þannig að EES-samningurinn er ekki bara samningur eða eitthvert tilboð eða slíkt sem kemur frá Evrópusambandinu heldur er þetta samningur milli þeirra sem eru aðilar að samningnum. Þar af leiðandi er algjörlega óþolandi, og mjög sérstakt í rauninni að við skulum ekki vera búin að setja niður hælana gagnvart Evrópusambandinu varðandi það, að þegar Evrópusambandinu dettur eitthvað í hug sem á að fara inn í EES-samninginn, virðist vera, er það bara sett þar, jafnvel þó að það eigi ekki heima þar eða passi þar illa. Það er sífellt gengið nær fullveldi og sjálfsákvörðunarrétti þeirra ríkja sem eru aðilar að samningnum, EFTA-ríkjunum til dæmis, og það virðist vera gert einhliða.

Við þurfum þar af leiðandi að segja við Evrópusambandið að þetta gangi ekki lengur. Við séum ef til vill reiðubúin að rýmka til að einhverju leyti þannig að við getum gengist undir frekari skuldbindingar en á því eru líka mörk. Þar af leiðandi verði Evrópusambandið að setjast niður með þeim sem standa að þessum samningi og velta fyrir sér hvernig hann geti haldið áfram að þróast eðlilega og án þess að annar aðilinn, Evrópusambandið, sé að neyða hin ríkin til þess að elta, þannig að þetta sé bara á annan veginn.

Frú forseti. Ég kemst ekki lengra (Forseti hringir.) að sinni og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.

(Forseti (ÁÞS): Sá forseti sem hér stendur setur fólk aldrei á mælendaskrá fyrr en ræðu þeirra er lokið. Þá geta menn beðið um að vera settir aftur á mælendaskrá.)