141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[16:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir lofsamleg ummæli hans um starfsmenn utanríkisþjónustunnar. Sömuleiðis hans góða skilning á þörfum hennar til að hafa svigrúm, fjárhagslegt og atgervislegt, til þess að sinna störfum sínum. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það koma tímar í lífi þjóðar þar sem er þörf á því. Ég get til dæmis upplýst hann um að það hefur farið gríðarlega mikill þungi og tími og margir menn í að vinna fram málstað Íslands í makrílmálinu, ekki síst gagnvart hugsanlegum viðskiptaþvingunum. Þá skiptir máli að hafa menn á vettvangi eða senda vítt um álfur og það kostar peninga. Ég mundi því segja að hv. þingmaður, ég skal ekki segja að hann eigi endilega skilið að vera útnefndur starfsmaður dagsins af hálfu utanríkisþjónustunnar í dag, sé sannarlega gott efni í utanríkisráðherra, ég sé það. Hann hefur hinn rétta skilning í fingurgómum sínum.

Ég ætla ekki að deila við hv. þingmann um Evrópusambandið. Við höfum áður rætt um kaupfélög yfir þennan ræðustól og erum ekki fullkomlega sammála um þau bæði, þó að um annað sé. Ég ætla að gleðja hann hins vegar með einu. Hv. þingmaður hefur aftur og aftur á síðustu fjórum árum talað um nauðsyn þess að gera fríverslunarsamning við Bandaríkin. Hér hafa flokksmenn hans flutt um það þingsályktunartillögur. Ég hef farið í gegnum það af hverju það hefur ekki tekist. Það hefur skort áhuga af hálfu Bandaríkjamanna og þeir hafa gert ansi þungar kröfur, t.d. gagnvart innflutningi á landbúnaði. En það er til hjáleið að þessu. Nú blasir við samkvæmt fregnum að Evrópusambandið er að ráðast í gerð fríverslunarsamnings við Bandaríkin þannig að ef við sippum okkur saman inn í ESB fáum við sem bónus fríverslunarsamning við Bandaríkin. Hvað segir hv. þingmaður um það, gleðst hann ekki yfir því?