141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[16:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hlý orð í minn garð, en ég vildi hins vegar nota þá ræðu sem ég flutti hér áðan til árétta mikilvægi þess að öflug utanríkisþjónusta sé rekin fyrir Ísland líkt og önnur ríki gera. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að ég er sammála þeim áherslupunktum sem koma fram varðandi norðurslóðirnar og viðskiptasamninga og þess háttar, en eins og hæstv. ráðherra nefndi réttilega deilum við ekki alveg sömu skoðun þegar kemur að Evrópusambandinu. (Utanrrh.: Blæbrigðamunur.) Já, við getum kannski kallað það blæbrigðamun, en þegar kemur að fríverslunarsamningi við Bandaríkin og að fara þá hjáleið sem hæstv. ráðherra nefnir verð ég því miður að viðurkenna að mér hugnast sú sigling alls ekki. Ég met það þannig að þeir hlutir sem Ísland mun þurfa að afsala sér gangi það í Evrópusambandið réttlæti ekki einu sinni það að gera fríverslunarsamning við Bandaríkin í gegnum Evrópusambandið.

Ég held að hagsmunum Íslands sé einfaldlega betur borgið að vera frjáls og sjálfstæð þjóð til að gera þá samninga við þau ríki sem við viljum gera samninga við á eigin forsendum. Við erum í EFTA og gerum samninga að sjálfsögðu líka þar en, það skiptir mestu máli í þessu að við höldum áfram viðræðum við þau ríki sem við teljum ákjósanlegt að semja við, hvort sem það eru Bandaríkin eða Kína eða einhver önnur ríki. Ég held að hagsmunir okkar, hvað sem svo verður í framtíðinni, í hvaða bandalögum eða alþjóðasamstarfi við verðum þegar fram líða stundir, séu að vinna í þessum málum. Mér líkar vel að áhersla ráðherra hafi verið á að reyna að klára samningana við stórveldið Kína. Ég held að við munum á endanum hafa töluvert upp úr því. Ég fagna því líka sem kom fram um Indland, en að sjálfsögðu er það þannig, hvort sem við semjum við Kínverja eða einhverja aðra, að við getum ekki gefið allt eftir. Ég geri mér grein fyrir að við eigum eftir að ræða um ákveðna viðkvæma hluti við þá, sem (Forseti hringir.) verður að sjálfsögðu að gera.