141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[16:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég var ekki alveg tilbúin fyrir þessa ræðu vegna þess að það var búið að segja mér að hér ætti að fresta fundi um ótiltekinn tíma, en með gleði skal ég fara yfir þessi mál á þeim stutta tíma sem er gefinn til að fjalla um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar um utanríkis- og alþjóðamál. Eins og gefur að skilja mun ég fara yfir þau málefni er snúa að Evrópusambandinu og umsókninni og þó aðallega hinu Evrópska efnahagssvæði sem í daglegu tali kallast EES-samningurinn.

Í andsvari við ræðu hæstv. utanríkisráðherra í morgun kom fram að hann væri orðinn hundleiður á þessum samskiptum við ESB og EES og að hann hefði þá tilfinningu að embættismenn í Brussel væru orðnir hundleiðir á EES-samningnum vegna þess að þeir vilja að við yfirtökum reglugerðir er snúa að fjórfrelsinu. Eru þar litlar undanþágur í boði og hafa embættismenn í Brussel hafnað mörgum undanþágubeiðnum Íslendinga er varða reglugerðarákvæði. Það kemur fram á bls. 46 og 47 í skýrslunni, undir kaflanum 4.3.2., sem ber yfirskriftina Erfiðleikar að fá viðurkennda sérstöðu Íslands í ýmsum málum. Þar er til dæmis reglugerð sem snýr að hinni svokölluðu 12 daga reglu um hvíldartíma ökumanna hópferðabifreiða. Þeirri undanþágubeiðni var hafnað.

Hér er líka upptaka reglugerðar varðandi forvarnir gegn, eftirlit með og útrýmingu tiltekinna tegunda smitandi heilahrörnunar eftir slátrun nautgripa. Svo er reglugerð varðandi þriðju raforkutilskipun ESB. Ekki hefur beinlínis tekist að semja um undanþágur frá þessum reglugerðum eins og kemur fram í þessari skýrslu. Þess vegna undrar það mig mjög og ýmsa fleiri sem hafa fylgst með umræðum hæstv. utanríkisráðherra að hann telur að við fáum einhverjar meiri háttar undanþágur í því aðlögunarferli sem nú er í gangi. Þær undanþágubeiðnir sem ég fór yfir áðan voru byggðar á því að við værum smáþjóð, eyþjóð, en Evrópusambandið hafnaði þeim. Á sama tíma talar hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson um að við fáum undanþágur, sérstaklega í sjávarútvegi og jafnvel landbúnaði, sem smáríki ef Ísland gengur í sambandið. Þarna skiptast á skin og skúrir hjá hæstv. utanríkisráðherra. Það sem hann notar sem rök á annarri hliðinni er notað sem mótrök hjá ESB.

Það er líka skemmtilegt að segja frá því sem kemur fram á bls. 40 í kafla 4.1. og 4.1.1. sem bera heitin Hið pólitíska umhverfi EES-samningsins og Tillögur Evrópusambandsins um tengingu smáríkja við EES-samninginn. Á meðan hæstv. utanríkisráðherra er hér fremstur í flokki við að reyna að koma okkur sem smáríki inn í Evrópusambandið með stuðningi Samfylkingarinnar hér á landi og þingmanna Vinstri grænna hugsar Evrópusambandið sér til hreyfings gagnvart öðrum smáríkjum sem standa utan sambandsins. Það eru ríkin Andorra, Mónakó og San Marínó (Gripið fram í.) og þau eru flokkuð sem smáríki.

Viðræður hafa orðið hjá ESB við þessi ríki sem leiða til þess að Evrópusambandið ræðir það beinlínis að þessum ríkjum verði boðin þátttaka á innri markaði ESB með því að gefa þeim kost á að innleiða EES-samninginn hjá sér. Þarna leggur Evrópusambandið það til að þau fari sömu leið og við Íslendingar, að vera þátttakendur á innri markaðnum í gegnum EES-samninginn. Þess vegna er óskiljanlegt hversu mikið menn leggja á sig hér á landi við að koma okkur úr EES og inn í ESB með beinni aðild. Þetta eru nokkuð skrýtnar áherslur en kannski byggir þetta á því að Ísland sjálft er mjög auðlindaríkt. Eins og ég hef farið yfir í mörgum ræðum áður eru ríki Evrópusambandsins auðlindasnauð og þau, a.m.k. Brussel-veldið, þrá mjög að komast á norðurslóðir og í öll þau gæði og þá kosti sem fylgja okkar landi, fiskveiðilögsöguna okkar. Það er hugsanlega olía á Drekasvæðinu, svo er kalda vatnið, heita vatnið, jafnvel kalt andrúmsloft og síðast en ekki síst innkoma Evrópusambandsins á norðurslóðir í gegnum Norðurheimskautsráðið. Nú hefur það einungis áheyrnarfulltrúa en þessi ríki hafa fulla aðild. Það er ýmislegt sem býr undir.

Hæstv. utanríkisráðherra fór yfir það í andsvari við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson rétt áðan hvort við framsóknarmenn gleddumst ekki yfir því að Evrópusambandið væri að gera tvíhliða samning við Bandaríkin og hvort þá væri ekki hægt að slá tvær flugur í einu höggi, að þegar sá samningur hefði fengið fullt gildi mundum við renna okkur inn í Evrópusambandið og vera þar með orðin fullgildir meðlimir að þeim samningi. Það sem ég botna ekki í er það að Evrópusambandið geti gert svona samninga við sjálfstæð ríki, eins og Bandaríkin, á jafnréttisgrundvelli þar sem báðir aðilar fá að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og báðir aðilar sjá til þess að breyta löggjöf sinni í samræmi við þá samninga sem samið er um. Hér eru þetta einhliða tilskipanir frá Evrópusambandinu, beint frá Brussel. Það setur löggjöfina og svo verða EES-þjóðirnar að kokgleypa regluverkið sem snýr að fjórfrelsinu og hafa þar með ekki nein áhrif á lagasetninguna.

Mér finnst þetta mjög undarlegt, sér í lagi vegna þess að það reynir alltaf meira og meira á EES-samninginn, ESB er alltaf að færa sig lengra og lengra í átt að því að verða sambandsríki og stofnanakerfi þess undirbýr mikinn samruna eins og hefur komið fram, samanber þessa eftirlitsstofnun sem áætlað er að setja á stofn til að fylgjast með fjármálamörkuðum sem er gerð krafa um að við Íslendingar innleiðum. Í leiðinni er brostinn sá grunnur sem við höfum byggt innleiðingu reglugerða hér á landi á, hinn svokallaði tvístofna samningur. Fyrir jólin fór, að mínu mati, löggjafinn fram úr sér í lagasetningu vegna þess að ekki var heimild í íslensku stjórnarskránni til að fara þá leið sem var farin vegna þess að framkvæmdarvald og dómsvald var þar með framselt úr landi.

Þingmenn undir forustu hæstv. utanríkisráðherra létu sér það í léttu rúmi liggja. Ég tel að ekki verði ekki lengra farið í lagasetningu hér á landi nema með breyttri stjórnarskrá eða þá með því að endurskoða þau áhrif sem kröfur Evrópusambandsins um að pína okkur til þess að fara fram úr stjórnarskrá okkar með innleiðingu laga hér á landi hefur á íslenskan rétt og íslenska löggjöf. Ég lít þetta mjög alvarlegum augum, virðulegi forseti, og skil ekki þann hvata hjá Evrópusambandinu að knýja EES-þjóðirnar til að taka svona einhliða upp reglugerðir og lög. Ein skýringin, og sú sennilegasta, er knýjandi þörf Evrópusambandsins til að fá EES-þjóðirnar inn í sín vébönd. Við erum að tala um Sviss, Ísland og Noreg, afbragðsvel rekin lönd að frátöldu bankahruninu hér á landi. Við þurfum líka að skilja samhengið á milli Íslands og Noregs og ég minni á að Norðmenn hafa tvisvar fellt ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að sjálfsögðu komum við Íslendingar til með að gera það líka þegar við fáum að greiða hér atkvæði um hvort halda eigi áfram. Nú er umsóknin komin í hvíld og verður ekki tekin upp aftur nema það sé vilji til þess eftir næstu alþingiskosningar. Raunverulega verður kosið um það hvort þessu verði haldið áfram og þá að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og við framsóknarmenn samþykktum um síðustu helgi á flokksþingi okkar. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Það eru komin tímamót í ESB-málunum hér á landi og ég fagna því.