141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[19:40]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég fagna því að geta tekið þátt í þessari umræðu um skýrslu utanríkisráðherra. Ég hef verið hér í fjögur ár og ekki áður fylgst jafnmikið með utanríkismálum á þann veg sem ég hef gert þessi fjögur ár. Það hefur verið athyglisvert að sjá hvernig þau mál eru unnin hér og hversu oft mikil vinna er á bak við mál og hversu vönduð hún er.

Ég tel að þetta þing hafi unnið talsvert mikið afrek með hæstv. ráðherra í broddi fylkingar, sérstaklega hvað varðar viðurkenningu Palestínu sem er viðburður sem Íslendingar mega virkilega vera mjög stoltir af, hæstv. ráðherra og þingið eiga mikinn heiður skilinn fyrir það. Mér hefur sýnst á skýrslu ráðherra og verkum hans hingað til að flest hans spor í utanríkismálum hafi verið gæfuspor. Eitt feilspor steig hann, að vísu það sama í nokkur skipti í röð, það var Icesave, en öll hin sporin tel ég að hafi verið þjóðinni til farsældar. Afstaða hans og þrákelkni í því að viðhalda til dæmis fjárveitingum til þróunarhjálpar hafa verið mjög eftirbreytniverð og stimplað það vel inn í hugarheim bæði nágrannaþjóða og þjóða annars staðar í heiminum að Íslendingar, þrátt fyrir kreppuna og þrátt fyrir hrunið, hafa haldið áfram að veita fjármuni til þróunarmála í eins ríkum mæli og unnt er. Sjálfur hef ég starfað og starfaði mikið erlendis í alþjóðastarfi áður en ég kom inn á þing og hef haldið þeim samböndum mínum við eftir að ég settist inn á þing. Ég heyri það oft að mönnum fannst það eitt af merkari skrefum Íslendinga eftir hrunið að geta haldið áfram því merka starfi að styðja við þróunarhjálp.

Ýmislegt fleira gott mætti segja um þessi mál, en það vill einnig þannig til að ég þekki sæmilega til í Afríku þar sem ég starfaði áður. Ég get staðfest að ferð hæstv. ráðherra til dæmis til Malaví og Suður-Afríku á sínum tíma gerði það að verkum að Ísland stimplaði sig mjög rækilega inn sem gerandi í þessum heimshluta hvað varðar þróunarmál og að það er eftirspurn eftir hæstv. ráðherra í þeim heimshluta. Menn hvetja til þess að hann komi þangað aftur í heimsókn til þess einfaldlega að útskýra fyrir þjóðum þarna suður frá hvað er í gangi á Íslandi. Það er eftirspurn eftir þekkingu á því hvernig við tókumst á við hrunið og hvernig við höfum tekist á við það niðurbrot sem orðið hefur í mörgum geirum samfélagsins eftir hrunið. Sérstaklega hafa menn vísað í nýju stjórnarskrána sem við höfum unnið að hér í rúmlega þrjú ár. (Gripið fram í.) Það hefur vakið mikla eftirtekt hvernig öll þjóðin var tekin með í þá vegferð, alla leið, þangað til í dag og á morgun og einhvern næstu daga að við vonandi náum að klára verkið.

Það er mikill áhugi á lýðræði í Afríku og það er mikill áhugi hjá Afríkuþjóðum á að gera betur í þeim málum. Það er mikill áhugi á því að vanda sig meira og gera hlutina betur, til dæmis í stýringu ríkisfjármála í Afríku, sem er sá geiri sem ég hef komið að. Þar veit ég meðal annars að utanríkisráðuneytið hefur styrkt verkefni í þá veru sem vakið hefur mikla eftirtekt og er vonandi að þeirri góðu vegferð verði haldið áfram.

Hvað varðar Evrópusambandsumsóknina fór hún í ákveðinn farveg á sínum tíma hér árið 2009 og upphaflega studdu þingmenn Hreyfingarinnar, þá Borgarahreyfingarinnar, þá umsókn. Við neyddumst til að snúast gegn henni á ögurstundu vegna tengsla umsóknarinnar við Icesave-málið, en eftir að þeirri orrahríð lauk höfum við öll þrjú í Hreyfingunni einarðlega stutt við það að aðildarviðræður verði kláraðar og að málið verði leitt til lykta. Ég tel, eins og fjölmargir aðrir, að það væru einhver verstu afglöp sem Íslendingar gætu gert að hætta við aðildarumsóknarferlið í miðju kafi.

Það hefur verið rifist um Evrópusambandið í um 30 ár á Íslandi og ef menn leiða þessa aðildarumsókn ekki til lykta í þessari atrennu munum við rífast um Evrópusambandið í önnur 30 ár í viðbót. Það er einfaldlega algjör óþarfi að eyða tímanum í það og það er að mínu mati heimskulegt að fara í þá skotgröf og halda því áfram. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi haldið mjög vel á spöðunum í því máli. Hann hefur átt við erfiðleika að etja í stjórnarliðinu hvað það varðar. Það mál var leyst fyrir ekkert mjög löngu síðan með ákveðnu pólitísku samkomulagi sem ég tel að sé til eftirbreytni þannig að málið getur haldið áfram þó að það haldi áfram eitthvað hægar en æskilegt væri.

Ég er sjálfur enn hlutlaus gagnvart Evrópusambandinu og aðild að því. Ég byrjaði að kynna mér það fyrir mörgum árum þegar ég var í námi í Bandaríkjunum og hef mestallan tímann talið Íslendinga eiga heima þar inni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum sem varða sjálfdæmið og þá sérstaklega yfir auðlindum okkar. Miðað við aðgerðir Evrópusambandsins undanfarna mánuði og ár gagnvart Grikklandi og Portúgal hef ég aftur á móti verið að fá auknar efasemdir um hvort við ættum raunverulega að vera í því liði, en það Evrópusamband sem er til í dag verður ekki það Evrópusamband sem við munum ganga í eftir nokkur ár ef við förum þangað inn. Það verður gjörbreytt Evrópusamband og við munum einfaldlega taka afstöðu til þess þegar þar að kemur, vonandi. Eins og ég sagði áðan held ég að það væri versta mögulega niðurstaða að svipta þjóðina þeim sjálfsagða rétti að taka ákvörðun um það hvort við eigum að vera aðilar að Evrópusambandinu eða ekki. Mér finnst það vera aðför að lýðræðinu á Íslandi og aðför að almenningi að svipta hann því tækifæri. Sjálfur mun ég einfaldlega gera upp hug minn þegar þar að kemur og aðildarviðræðum lýkur, sem verður vonandi innan ekki of langs tíma.

Það líður að kosningum í þessu landi, það verða kosningar hér eftir rúma tvo mánuði og ómögulegt að segja hvernig fer. En ég tel að utanríkismálum Íslands hafi verið ágætlega borgið alla vega undanfarin fjögur ár og ég tel að sú kjarkmikla utanríkisstefna — sérstaklega hvað varðar Palestínu og fleiri atriði, oft ekkert endilega í þökk okkar stóra nágranna í vestri, Bandaríkjanna — beri með sér að Íslendingar munu áfram koma fyrir á alþjóðavettvangi sem sjálfstæð fullvalda þjóð sem mun fyllilega standa á eigin fótum ef með þarf, og ekkert að óttast í þeim málum. Utanríkismálin eru ef til vill sá hluti stjórnskipunarinnar sem hefur gengið einna best eftir hrunið og sem minnstar áhyggjur þarf að hafa af í framtíðinni og það er góðs viti. Það er friðvænlegt í kringum okkur, það er ekki endilega friðvænlegt í heiminum, og við erum ágætlega á vegi stödd með fæturna á jörðinni þar sem við erum. Ég tala nú yfirleitt ekki mikið um utanríkismál hér í þingsal en það er gott að hafa fengið að koma þessu á framfæri. Ég óska hæstv. ráðherra velfarnaðar með þá stefnu sem við höfum fylgt og henni verður vonandi fylgt í einhverjum svipuðum mæli í framtíðinni.