141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[19:53]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir hv. þingmenn þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrsluna. Hún er bæði lífleg og fróðleg. Það eru nokkur atriði sem mig langar að gera hér að umtalsefni.

Fyrst vil ég nefna kafla sem snýr að samstarfi Norðurlandanna á liðnu ári. Ég er í hópi þeirra sem fagna því samstarfi sem hefur þróast á vettvangi Norðurlandanna á grundvelli Stoltenberg-skýrslunnar. Þar er ein stoðin eða eitt af þeim verkefnum, fyrir utan auðvitað að verjast netárásum og berjast gegn mansali, loftrýmisgæslan. Hún skiptir máli fyrir okkur Íslendinga. Ég held að samstarf hinna norrænu ríkja eigi eftir að vaxa og dýpka. Ég minni líka á mikilvægt samstarf þessara ríkja þegar kemur að málefnum Eystrasaltsins og eins samskiptum við Rússland. Það er mjög mikilvægt að nýta hið norræna samstarf ekki bara inn á við ef svo má segja. Lögð var gríðarlega mikil vinna á undanförnum árum og áratugum í að búa þannig um hnútana að ríkisborgarar þessara ríkja gætu farið á milli landa og búið þar og unnið og að sem minnstar hindranir væru fyrir hendi. En samstarf Norðurlandaþjóðanna á vettvangi utanríkismála er líka mikilvægt. Þessar þjóðir eiga sameiginlega sögu og menningararf og deila sameiginlegum gildum og því er tilvalið og eðlilegt að þær auki sitt samstarf á sviði utanríkismála og þar með talið varnarmála.

Það sem ég vildi gera hér aðeins að umtalsefni snýr að aðildarviðræðum okkar Íslendinga að ESB og efnahagsmálunum. Það er ágætt yfirlit í kafla 3.5. í skýrslunni um efnahagsmál og aðildarviðræðurnar. Ég vil bæta því inn í þá umræðu eða velta því upp að ég er þeirrar skoðunar að fram undan sé bara ein þróun þegar kemur að evruríkjunum og hún sé sú að samruni þessara ríkja á sviði efnahagsmála muni aukast og vaxa. Það er í raun og veru forsenda þess að ríkin hafi eina sameiginlega mynt að nægjanleg samþætting ríkisfjármálanna náist. Nú þegar hefur verið gripið til nokkurra aðgerða til þess að auka slíka samþættingu og eftirlit með ríkisfjármálunum þó að ég taki eftir því að í skýrslunni er sagt, með leyfi forseta:

„Í engu er þó verið að færa fjárlagagerð frá aðildarríkjunum til stofnana ESB, heldur munu þjóðþing aðildarríkjanna áfram taka ákvörðun um fjárlögin eins og verið hefur.“

Þó er um leið verið að setja upp alls konar kerfi og mekanisma til þess að setja hömlur á til dæmis fjárlagahalla og annað slíkt. Með öðrum orðum er verið að samþætta þessa hluti. Það er eðlilegt og nauðsyn að það verði gert. Það þýðir auðvitað að upp kemur sú umræða. Ég hefði gjarnan viljað heyra hvað hæstv. ráðherra finnst um það.

Ég held að þróunin verði sú að evruríki muni jafnt og þétt auka samþættingu sína vegna þess að þau verða að gera það. Það er æskilegt og nauðsynlegt og þeim mjög í hag af því að þau eru með hina sameiginlegu mynt. Á sama tíma eru nokkur önnur ríki innan ESB sem ekki eru með evruna þrátt fyrir að vera þar inni og sum hver eru ekki með neinar kvaðir um að taka hana upp, eins og Bretar og Danir. Þó að Svíum sé ætlað að taka evruna upp vita menn að þeir hafa sínar leiðir til að gera það ekki ef þeim sýnist svo. Þá myndast sú hætta eða í það minnsta verður sú þróun fyrirsjáanleg að evruríkin muni auka samþættingu sína en hin ríki ESB, sem ekki eru með evru, fylgi ekki á eftir. Við sjáum það strax að lönd eins og Bretland ætla sér ekki að ganga inn í þetta nána samstarf. Það þýðir, virðulegi forseti, að einhvers konar tveggja brauta ESB myndast, annars vegar það sem byggir á evru og þeirri víðtæku samþættingu sem þar er og hins vegar hin ESB-ríkin sem ekki eru með evru. Þetta mun óumflýjanlega hafa áhrif þegar fram líða stundir, það segir sig sjálft. Þetta mun breyta eðli og inntaki ESB-samstarfsins. Það er eiginlega óumflýjanlegt í mínum huga.

Vandinn þegar kemur að aðildarumsókn okkar Íslendinga er þá þessi: Inn í hvað erum við að fara? Inn í hvaða ESB erum við að fara að stíga ef til kæmi að samningar næðust og þjóðin segði já? Það er eiginlega ómögulegt akkúrat á þessum tímapunkti að segja til um það hvernig þróunin mun verða.

Ég er þeirrar skoðunar líka að í ljósi þess mikla samruna sem er óumflýjanlegur til að evran geti fúnkerað sem mynt, sem ég tel að sé mjög nauðsynlegt, fjarlægist sá möguleiki að það henti Íslandi að fara inn í slíkt samband. Ég vil minna á það að í riti Seðlabanka Íslands um valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum kom fram að Ísland er í hópi þeirra ríkja sem eru hvað fjærst því að geta tekið upp evru og haft af því gagn vegna þess hvernig hagkerfi okkar er byggt upp og hversu ólík við erum um margt hvað varðar hagsveiflu meginlandsríkjanna og þeirra ríkja sem mynda kjarnann í evru.

Virðulegi forseti. Þegar ég segi að samþættingin hljóti að aukast vil ég líka benda á þetta, en menn hafa oft velt því upp: Hvað með Bandaríkin? Hvernig getur verið að jafnfjölmennt og um leið margbreytilegt samfélag eins og Bandaríkin geti haft eina mynt fyrir öll þessi ólíku ríki? Þar hefur þessi samþætting í sjálfu sér átt sér stað. Hvernig hefur hún gerst? Hún á sér sögulegar rætur. Alexander Hamilton, fyrsti fjármálaráðherra Bandaríkjanna, kom því meðal annars í gegn af því að hann var sambandssinni að búin var til ríkisskuld Bandaríkjanna, gefin voru út skuldabréf sem Bandaríkin sem ríki ábyrgðust, það var lykilatriðið, og um leið var búinn til seðlabanki til þess að standa að baki mynt þessarar þjóðar. Það er einmitt það sem við hljótum og munum sjá og er óumflýjanlegt, að til verði einhvers konar samevrópsk skuld og skuldabréf og skuldabréfaútgáfa við hliðina á hinu samevrópska bankaeftirliti og öllu því sem snýr að stöðu bankanna og samhengi þeirra við ríkissjóði þessara landa. Þegar við erum komin með myntina og komin með seðlabanka er hitt óumflýjanlegt. Þegar fram líða stundir mun það hafa gríðarleg áhrif á eðli þessa ríkjasamstarfs.

Ég spái því að evruríkin muni þróast líkt og Bandaríkin í það að verða sambandsríki, það verði þróunin vegna þess að evran er komin. Ég spái því að evran muni lifa. Ég vona að það gerist, það eru svo miklir hagsmunir fyrir okkur Íslendinga og alla að það verði. Þess vegna held ég að þróunin verði þessi. Við höfum módelið fyrir framan okkur, sem er auðvitað saga Bandaríkjanna. Vandi Evrópu er sá að þetta er miklu flóknara þar vegna þess að ríkin eiga sér miklu lengri og dýpri sögu hvert fyrir sig, mismunandi tungumál, erfiðara er að fara á milli landa og vinnumarkaðurinn flóknari. En menn verða að minnsta kosti að ná fram þeirri samþættingu sem að er stefnt varðandi ríkisfjármálin og hina sameiginlegu evrópsku skuld eða skuldabréfaútgáfu til þess að geta staðið að baki evrunni. Sá hagfræðingur sem dýpst hefur hugsað um peningamál og hagfræði, Milton Friedman, varaði við því þegar evran var sett á laggirnar að hætta væri á því að hún færi út af í fyrstu beygju vegna þess að stofnanastrúktúrinn þar utan um væri ekki nægur, hann væri ekki tilbúinn, hann væri ekki þannig úr garði gerður að hann stæði undir þessari mynt.

Að lokum, virðulegi forseti, verður hin pólitíska eining að vera að baki mynt því að eftir því sem myntsvæðið er fjölbreyttara sem myntin á að ná yfir því meiri krafa er um hið miðstýrða pólitíska vald. Tökum sem dæmi land eins og Ítalíu með líruna á sínum tíma. Gríðarlegur munur var á milli Suður-Ítalíu og Norður-Ítalíu. Samt sem áður gekk að hafa eina mynt í því landi, þótt brösótt væri, vegna þess að pólitískt vald náði yfir allt þetta svæði, þar var pólitísk eining. Það má samt sem áður halda því fram (Forseti hringir.) að það hefði aldrei átt að ganga upp að hafa eina mynt fyrir Norður-Ítalíu og aðra fyrir Suður-Ítalíu vegna þess að þetta eru svo ólík svæði, en með hinni pólitísku einingu (Forseti hringir.) var það hægt.