141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[20:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Ég veit ekki hverjir stóðu í þeim misskilningi. Hins vegar held ég að það þyrfti miklu lengra mál til að útskýra af hverju, ef Ísland gengur í Evrópusambandið, vaxtastig hér á landi mun leita í átt til þess sem við getum kallað þýska vexti, það er nú einfaldlega þannig.

Mér fannst síðan nokkuð fallegt hjá hv. þingmanni þegar hann var að vísa til þess að frumherjar Evrópusambandsins höfðu þennan draum um sambandsríki af því að þeir höfðu kynnst hryllingi stríðsins. Nýjar kynslóðir hafa ekki kynnst honum og munu sennilega ekki gera það og það er einn af hinum stóru ávinningum Evrópusambandsins að því hefur tekist að koma á friði í Evrópu. Mér finnst ekkert útlit fyrir að einhver sú atburðarás geti farið af stað sem leiðir til slíkra endurtekinna styrjalda eins og saga Evrópu sýnir.

Hv. þingmaður vék í ræðu sinni áðan að því að gjaldmiðlaskýrslan hefði sýnt fram á að Ísland væri ef til vill fjærst því að geta náð fyllstu kostum og ávinningum evrunnar vegna þess að hagsveiflan hér er úr takti. Við því hef ég tvennt að segja. Hagsveiflan mun leita saman en við höfum samt þá sérstöðu að við erum ríki sem byggir á náttúrulegum lifandi auðlindum. Við sem ríki vitum að við munum alltaf ganga í gegnum einhvers konar náttúrufarslegar hremmingar. Við þurfum að bregðast við því ef við göngum í Evrópusambandið með því að sjá til dæmis til þess að grundvallaratvinnuvegurinn, sjávarútvegurinn, sé nógu feitur til að geta jafnað út sveiflurnar sjálfur. Það er akkúrat það sem við þurfum að gera.