141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[20:15]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nákvæmlega hárrétt skilið hjá hv. þingmanni að það er mín skoðun að leiðin sem menn hafa til þess að láta evruna virka sem gjaldmiðil þessara um margt ólíku ríkja er sú að auka samruna þeirra. Það er auðvitað hugsunin í að hafa sameiginlegan fána, sameiginlegan forseta, aukna samvinnu á sviði utanríkismála og síðan á efnahagssviðinu og svo framvegis. Það er eðlilegt. Ég er þeirrar skoðunar að fyrir mörg þessara ríkja sé það mjög æskilegt. Ekki er æskilegt fyrir okkur Íslendinga að ganga inn í það samstarf, ég held að það geti reynst okkur mjög erfitt.

Þótt gjaldmiðill hrynji ekki getur hann samt sem áður verið mjög óhentugur fyrir ákveðnar þjóðir sem eru inni í gjaldmiðlasamstarfinu. Það er það sem er átt við þegar menn segja að það sé evrukrísa eða evruvandi. Rétt eins og hv. þingmaður kom inn á þá geta ríki lent í gríðarlega miklum vanda vegna þess að vaxtastigið endurspeglar ekki þær aðstæður sem eru í viðkomandi hagkerfi. Með öðrum orðum, hagkerfin eru ekki nægjanlega keimlík. Hagsveiflan er of ólík til þess að hægt sé að hafa eitt vaxtastig á öllum svæðum.

Dæmið sem hv. þingmaður tók hér áðan um Spán er mjög gott. Nákvæmlega það sama mundi bíða okkar ef við værum í ESB og með evruna, nákvæmlega þessi vandi mundi skella á okkur. Hér geta komið upp aðstæður sem kalla á annaðhvort mjög hátt vaxtastig eða mjög lágt vaxtastig, en þá mun það engu gilda hvaða vaxtastig við þurfum því við munum búa við það vaxtastig sem evrunni fylgir. Atburðarás eins og varð á Spáni og á Grikklandi og annars staðar í Evrópu hefur sýnt og opinberað þann vanda sem því fylgir að vera hluti af myntsamstarfi án þess að hafa (Forseti hringir.) nægar forsendur fyrir því. Það er það sem Evrópusambandið og evruríkin eru að gera, að breyta þessum forsendum með því að gangi upp að hafa eina mynt.