141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[21:08]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál er allt að verða dálítið mikil sýndarmennska. Ef við rifjum það upp var það svo, og það man hv. þingmaður, að daginn fyrir kjördag fyrir síðustu alþingiskosningar sagði forustumaður Vinstri grænna, hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, að það yrði ekki sótt um aðild að Evrópusambandinu. Daginn eftir kjördag var það gefið eftir. Þá var sagt að sótt yrði um aðild en það yrði gert á grundvelli samninga. Menn hafa síðan notað ýmsar ástæður og sagt að þingið hafi ákveðið að sækja um en það virðist gleymast að þingið ákvað það meðal annars með svikaatkvæðum Vinstri grænna. Það var ekki þing sem þingmenn og ráðherrar Vinstri grænna áttu ekki sæti í sem ákvað það. (Utanrrh.: Þú varst í þessum flokki.) Og studdi það ekki, hæstv. utanríkisráðherra. (Gripið fram í.)

Það sem meira er, þegar talað er um að ekki eigi að aðlaga Ísland að regluverki Evrópusambandsins var meðal annars einn hæstv. ráðherra sem ekki vildi gera það og það var hv. þm. Jón Bjarnason. Hann vildi ekki aðlaga íslenskt regluverk að Evrópusambandinu og þá varð auðvitað að henda honum úr ríkisstjórn. Hver tók þá við? Það var hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Steingrímur J. Sigfússon. (Gripið fram í.)

Eftir það gekk hann auðvitað þennan aðlögunarveg eins og hv. þingmaður hefur rakið hér. En það var ekki nóg með það. Þegar var farið að tala um að leggja ætti ESB-umsóknina til hliðar, og það átti að nást meiri hluti fyrir því í utanríkismálanefnd, varð hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og formaður Vinstri grænna að ganga enn lengra og henda hv. þingmanni úr utanríkismálanefnd vegna þess að hann ætlaði að leggja til hlé, einmitt það hlé sem Vinstri grænir eru svo að tala um í dag. Þetta er að verða sýndarleikur frá upphafi til enda og það hvernig haldið hefur verið á málinu, (Forseti hringir.) orðið staðfesta kemur alla vega ekki fyrst upp í hugann.