141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[21:21]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Herra forseti. Til að allrar sanngirni sé gætt þá verður utanríkisráðherra að eiga það sem hann á í þessum efnum. Þegar þessi mál voru rædd, m.a. í ríkisstjórn og milli ráðherra, um kröfur vegna íslensks landbúnaðar og hagsmuna þar, tók hæstv. utanríkisráðherra þeim athugasemdum og ábendingum yfirleitt vel. Hvernig þeim málum reiddi síðan af veit ég ekki, en meðan ég var ráðherra bar fagráðherrann ábyrgð á hinum faglega þætti svona mála. Utanríkisráðherrann ber ábyrgð á málinu í heild en þegar lýtur að einstökum þáttum eins og landbúnaði og sjávarútvegi heyra þeir beint undir fagráðherrann sem slíkan. Ég fann ekki annað, að minnsta kosti á fundum með utanríkisráðherra, en á þau atriði sem ég kom með væri hlustað, svo það sé tekið skýrt fram.

Ég vildi bara koma þessari leiðréttingu á framfæri varðandi þennan texta. Ég geri mér grein fyrir því að ýmsir hafa haldið fram þeirri skoðun, sérstaklega í aðlögunar- og umsagnarferlinu, að það að banna innflutning á hráu ófrosnu kjöti og lifandi dýrum væri brot á EES-samningnum og að Evrópusambandið að minnsta kosti mundi aldrei samþykkja það og þess vegna þýddi ekki að setja það fram, eins og það var nú orðað. Það er allt önnur hlið. En við höfum okkar lagalega rétt til að setja fram þessar kröfur og staðfesta þær í íslenskum lögum. (Forseti hringir.) Þegar textinn um samningsafstöðu Íslendinga í þessum efnum var afgreiddur eftir umfjöllun í utanríkismálanefnd (Forseti hringir.) höfðu verið gerðar miklar bragarbætur á honum, þó svo að mikið vantaði upp á að hann uppfyllti þær kröfur (Forseti hringir.) sem íslensk lög kveða á um.