141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[21:35]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Frú forseti. Það er komið að lokum þessarar umræðu og væri hægt að taka hana allmiklu lengri. Ég hef áður vikið að textanum í innganginum, sérstaklega í inngangi að Evrópusambandskaflanum. Sá texti er ein lofgjörð um Evrópusambandið og ágæti þess, sú sama og við heyrðum frá hæstv. ráðherra hér áðan. Orðavalið er mjög sérstakt, það er mjög sérstakt þegar hæstv. ráðherra talar svona fyrir hönd ríkisstjórnarinnar þar sem sumir eiga að vera á móti aðild en hann innilega með aðild, en hann hefur ekki dregið neina dul á það.

Textinn ber líka með sér þessa einlægu og barnslegu trú á ágæti Evrópusambandsins fyrir Ísland en þetta er líklega síðasta skýrsla hæstv. utanríkisráðherra hvað þetta varðar enda líður að kosningum. Er það vel að hann hefur kímnigáfuna í lagi, sumum finnst um of varðandi svo alvarlegt mál, en engu að síður léttir það umræðuna. Það er sjálfsagt að þakka hæstv. ráðherra fyrir þennan hlut í málflutningi hans hér á þingi, málflutning sem oft kætir mann þó að maður greini alvöruna undir og viti að hæstv. ráðherra er einlægur stuðningsmaður þess að ganga í Evrópusambandið eins og flokkur hans. Um það munum við takast á í næstu kosningum.

Ég vildi hins vegar spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega um þessar sérlausnir. Hann kemur enn upp í ræðustól og heldur því fram að hægt sé að fá einhverjar varanlegar sérlausnir sem hafi lagalegt ígildi og ævarandi undanþágustöðu gagnvart lagabálki Evrópusambandsins. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að nefna það. Eins og ég hef séð þetta þá eru engar varanlegar undanþágur til frá lagabálkinum, ekkert nema tímabundnar undanþágur sem geta verið í boði.