141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[21:47]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra fór hér mikinn. Staðreyndin er sú að hann er kominn á hálan ís þegar hann fer að (Gripið fram í: Ekki í fyrsta skipti.) tala um flökkustofnana. Ef við hefðum verið aðilar að Evrópusambandinu áður en makríllinn kom inn í lögsöguna hefði Ísland ekkert fengið af honum á sömu forsendum og við höfum fengið úr flökkustofnum sem farið hefðu út úr lögsögunni eftir að við værum orðnir aðilar að Evrópusambandinu. Girðingin virkar í báðar áttir, hæstv. utanríkisráðherra. Hæstv. utanríkisráðherra talar hér um að við mundum halda stofnum sem fara út úr lögsögunni en það sama gildir um þá stofna sem koma inn, við mundum ekki eiga hlutdeild í þeim stofnum.

Það er algjörlega óþolandi fyrir Alþingi Íslendinga að hæstv. utanríkisráðherra skuli ítrekað, aftur og aftur, koma hingað og halda slíku bulli fram, eins og hann gerði hér áðan. Það er algjörlega óþolandi. (Gripið fram í.) Það sýnir í hversu mikinn vanda þessi Evrópusambandsumsókn er komin.

Af hverju hefur Evrópusambandið ekki enn svarað okkur um deilistofnana? Af hverju er ekki hægt að klára þessi stóru mál? Vegna þess að mönnum er ljóst hvernig landið liggur. Utanríkisráðherra er sagt það í hvert einasta sinn sem hann fer til útlanda að engar varanlegar undanþágur séu í boði. Hæstv. utanríkisráðherra er búinn að átta sig á því og þess vegna er hann farinn að tala um sérlausnir innan ramma regluverksins.

Það sem Íslendingar þurfa í raun á að halda er að undirgangast eitthvað annað en regluverk Evrópusambandsins. Það vill svo heppilega til, frú forseti, að meiri hluti þjóðarinnar er mótfallinn Evrópusambandsaðild. Það vill svo heppilega til að jafnvel þótt hæstv. utanríkisráðherra hafi reynt í lok þessa kjörtímabils að bjóða Samfylkinguna fram undir nýjum merkjum lítur út fyrir að þjóðin sé að hafna þessari utanríkisstefnu og að þetta sé síðasta skýrsla (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra. Því fagnar sá sem hér stendur.