141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með það að 90 ár eru síðan fyrsta konan tók sæti á Alþingi. Því ber auðvitað að fagna að jafnréttismál skuli vera margfalt sterkari nú og hafi vaxið jafnt og þétt á síðastliðnum árum og áratugum.

Það sem mig langaði að koma hingað upp til að ræða er að mjög skammt er eftir af þessu þingi. Það liggur alveg ljóst fyrir að mörg af málum ríkisstjórnarinnar munu ekki ná í gegn á þessum skamma tíma einfaldlega vegna þess hversu seint þau koma fram, hversu mikið á eftir að vinna í þeim o.s.frv. Margir stjórnarliðar eru farnir að viðurkenna að erfitt getur reynst að klára mál eins og stjórnarskrármálið á svo skömmum tíma.

Ég kalla eftir því að við sem erum hér í þessum sal tökum saman höndum á þeim skamma tíma sem er eftir fyrir alþingiskosningar og förum yfir stöðu heimilanna, skuldamálin og verðtrygginguna. Það er nægur tími til þess ef þingið allt tekur höndum saman til að taka á þessum málum.

Menn hafa talað um það hér að ekki sé hægt að bregðast við verðtryggingunni. Stjórnarliðar Samfylkingarinnar hafa sagt að það sé ekki hægt að taka á verðtryggingunni nema ganga í Evrópusambandið og taka upp aðra mynt. Staðreyndin er sú í dag að stærstur hluti af nýjum útlánum sem eru veitt er í formi óverðtryggðra lána. Ég kalla eftir því að forustumenn ríkisstjórnarinnar setjist nú niður með öllum flokkum og líti meðal annars til tillagna sem Framsóknarflokkurinn samþykkti á flokksþingi sínu sem gera ráð fyrir því að taka á verðtryggingunni. Það er nægur tími til stefnu. Það sem þarf er viljinn. Við megum ekki skilja heimilin eftir í lausu lofti. (Forseti hringir.) Allir sem skilgreina sig sem jafnaðarmenn í jafnaðarmannaflokki ættu að hafa forustu í þessu máli á þeim skamma tíma sem er eftir fram að alþingiskosningum.