141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir þær hamingjuóskir og árnaðaróskir sem hér hafa verið bornar fram í tilefni þessara merku tímamóta og vil líka hrósa virðulegum forseta fyrir þá ákvörðun að hengja hér upp mynd Ingibjargar H. Bjarnason. Það er sennilega ekkert sem er meira heilbrigðismerki á einu samfélagi en það hvernig okkur tekst að tryggja jafnrétti í reynd, ekki bara í lagatexta, ekki bara í orði heldur á borði. Það eru auðvitað frumherjarnir, þeir sem tóku fyrstu og erfiðustu skrefin, sem eiga mestan heiðurinn skilið. Það er því mjög vel til fundið að mynd Ingibjargar hangi í þingsalnum í dag ásamt myndinni af Jóni Sigurðssyni.

Virðulegi forseti. Það sem ég vil gera auk þess að umræðuefni er að ég tel að sú staða sem er að koma upp í ríkisfjármálum okkar sé þess virði að við lítum nokkuð nánar á. Fyrir liggur að útgjöld eru að hækka vegna kjarasamninga og kjaradeilna, m.a. á Landspítalanum, og fyrir liggur að á næstu missirum mun aukast mjög pressan á að hækka öll laun í landinu bæði hjá hinu opinbera og á almenna markaðnum. Á sama tíma dregur úr hagvexti. Hagvaxtarspárnar ganga ekki eftir. Spáin sem var lögð til grundvallar fjárlögunum virðist vera brostin og svo mikið að um munar. Málið er þetta, og það er ekkert nýtt í því: Launahækkanir (Forseti hringir.) umfram framleiðniaukningu munu engu skila nema verðbólgu. Þetta þekkjum við af biturri reynslu. Það er nauðsynlegt að bregðast við og gera það strax áður en í óefni verður komið.