141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til þess að hafa sömu áhyggjur og Fitch Ratings hefur af því brothætta ástandi sem ríkir hér á landi. Það eru auðvitað mjög alvarleg tíðindi sem okkur bárust í Peningamálum Seðlabankans sem nýverið komu út. Við vitum að mjög margir bundu miklar vonir við að við værum að komast á rétta leið, fjárfestingar mundu aukast, hagvöxtur væri á réttri leið, en við þekkjum það líka að hagvöxturinn hefur mjög mikið byggst á einkaneyslu. Nú sjáum við tölur um að einkaneysla fari minnkandi, það sjáum við t.d. úr tölum um kortaveltu.

Það sem er miklu alvarlegra er að því hafði líka verið spáð að fjárfesting hér á landi mundi fara vaxandi ár frá ári. Árið 2011 var því til dæmis spáð að fjárfesting mundi aukast á þessu ári, árinu 2013, um rúmlega 14%. Í endurskoðaðri spá sem var gerð fyrir árið 2013 í fyrra var þessi tala komin niður í 6,5%. Nú er talað um að fjárfesting muni dragast saman og því miður mun ýmislegt sem ríkisstjórnin er að gera stuðla að því.

Sömuleiðis sjáum við, þegar við skoðum tölur um verga landsframleiðslu, að menn voru býsna bjartsýnir á árinu 2011 fyrir árið 2013. Þá var því spáð að landsframleiðslan mundi aukast um 3,4% á þessu ári. Það var endurskoðað og talan fór í 2,5% í fyrra og nú eru menn komnir niður í 2,1%. Það er um 40% lækkun frá spánni árið 2011. Við vitum núna að horfur í ríkissjóði eru mun verri en talið var, tekjurnar munu minnka vegna minni fjárfestingar, vegna minni einkaneyslu, og við sjáum að útgjaldaforsendurnar eru því miður líka að bresta, útgjöldin hrannast upp. Samningurinn núna við hjúkrunarfræðinga mun auðvitað þegar hafa þau áhrif að ákall verður um frekari útgjöld. (Forseti hringir.)

Það er ástæða til að taka undir með Fitch Ratings að ástandið er ákaflega brotakennt og fjarri þeirri glansmynd sem ríkisstjórnin hefur dregið upp.