141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:09]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að deila við hæstv. forseta um að hafa stjórnarskrármálið á dagskrá í dag og lýsi mig reiðubúinn til að taka þátt í umræðum um það eins og þörf krefur. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort hæstv. forseti hafi velt því fyrir sér að gefa tíma í dag þannig að þingflokkar ríkisstjórnarflokkanna geti átt fundi um þetta mál, vegna þess að miðað við þær yfirlýsingar sem hafa komið hér í þinginu og í fjölmiðlum er greinilegt að menn innan þeirra flokka stefna mjög í mismunandi áttir. Ég velti því fyrir mér hvort það væri ekki málinu til framdráttar ef við gæfum einn, tvo, þrjá klukkutíma í dag til þess að þingflokkar ríkisstjórnarflokkanna geti rætt þetta mál og komist að einhverri niðurstöðu um það hvernig þeir ætla að halda því áfram.