141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[11:10]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að vekja athygli á blaðagrein sem birtist í morgun í Fréttablaðinu þar sem Pawel Bartoszek skrifar um álit Feneyjanefndarinnar. Það er ástæða til að staldra við og veita athygli því sem Pawel Bartoszek skrifar um þetta mál því að hann er einn af þeim sem sátu í stjórnlagaráðinu. Grein hans heitir „Sprengjur Feneyjanefndar“ og er væntanlega einhvers konar tilvísun í frétt sem birtist í blaðinu þegar efni Feneyjanefndarálitsins byrjaði að leka út eftir ólíkum leiðum. Frétt Fréttablaðsins var að það væru engar sprengjur í því áliti en álit Pawels Bartoszeks er annað og ég ætla að leyfa mér að benda sérstaklega á og lesa upp eftirfarandi, með leyfi virðulegs forseta, úr lokakafla greinarinnar:

„Í umsögn um finnsku stjórnarskrána frá 2007 er að finna setningu um að „stjórnarskráin sé í samræmi við evrópsk viðmið um lýðræði, réttarríki og mannréttindi“. Slíka setningu er ekki að finna í bráðabirgðaáliti Feneyjanefndar um þau drög sem nú liggja fyrir. Þvert á móti er margt þar með því allra beinskeyttasta sem sést hefur.“

Það er rétt að hafa í huga að þegar þeir sem sinna háum embættum í heimi diplómatíunnar tjá sig hefur stundum verið haft á orði, og það er ágætt að hér er hæstv. utanríkisráðherra sem kann þá list ágætlega, að diplómatarnir hafi þá hæfileika að segja mönnum að fara norður og niður með þeim hætti að kurteislega hljómi og jafnvel að menn hlakki til ferðarinnar.

Þegar menn lesa þetta álit Feneyjanefndarinnar er rétt að hafa það í huga að þótt það sé ekki sagt með upphrópunarmerkjum og stórum orðum verða menn að átta sig á því hvað þarna er á ferðinni. Grein Pawels er ágæt áminning um það.

Það þýðir ekki að svara öllum ábendingum og athugasemdum með því að þetta skipti ekki máli, þetta hafi áður verið skoðað eða þetta séu bara minni háttar athugasemdir. Það er augljóst að svo er ekki.

Ef við miðum við þær athugasemdir sem koma frá nefndinni og eru meðal annars reifaðar í grein Pawels sjáum við auðvitað í hendi okkar að bara það eitt verk tæki okkur sennilega einhverja mánuði ef vel ætti að vera. Við ættum að horfa til þess tíma sem fram undan er fram að þinglokum og fram að kosningum og þess verkefnis sem við stöndum frammi fyrir og bara það að vinna úr áliti Feneyjanefndarinnar um afmarkaðan kafla þessara stjórnarskrárbreytinga tekur ærinn tíma ef við ætlum að vinna upp úr því með einhverjum vitrænum hætti, ef við ætlum að finna síðan með þessum athugasemdum lausn á þeim vandamálum sem bent er á, koma þeim í orð og búning til þingsins.

Þetta er vandi vegna þess að svo eru fjöldamargar aðrar athugasemdir sem innlendir sérfræðingar hafa gert um aðra kafla, sem líka á eftir að vinna á — (Gripið fram í: Það er ekki rétt.) og hér er kallað úr salnum: Það er ekki rétt. Vandinn í þessu er að það kemur alltaf sama svarið við öllum athugasemdum. Við öllum ábendingum sem hafa komið fram eru svörin alltaf þessi: Þetta er ekki rétt, það er búið að skoða þetta, eða: Þetta er minni háttar. Það eru alltaf svörin.

Virðulegi forseti. Það dregur nokkuð úr trúverðugleika umræðunnar ef svarið er alltaf það sama, sama hver athugasemdin er eða spurningin. Þá fara menn auðvitað að hugsa sitt.

Áður en ég sný mér að þeim efnisatriðum sem ég ætla að ræða í minni ræðu langar mig að nefna eitt, það sem snýr að þeirri ákvörðun að fara í breytingar á stjórnarskránni við þær aðstæður sem mynduðust í íslensku samfélagi í kjölfar hrunsins.

Þetta á sér nokkrar sögulegar hliðstæður. Sumarið 1940 þegar þriðja lýðveldið í Frakklandi hrundi undan ofsaárás Þjóðverja, ef svo má segja, var farið í það verkefni að breyta frönsku stjórnarskránni við þær aðstæður sem þá voru uppi, á meðan þingið hafði enn þá sitt umboð. Það var mikil krafa um að frönsku stjórnarskránni yrði breytt, m.a. þannig að hún endurspeglaði betur stjórnarskrár ríkjanna í kring, þ.e. Þýskalands, Ítalíu og Spánar. Auðvitað spurðu menn í því landi: Hvað í ósköpunum gerðist? Hvernig í ósköpunum gat það átt sér stað að þetta mikla ríki, Frakkland, sem hafði sigrað fyrri heimsstyrjöldina hafði hrunið til grunna, þ.e. her þess, á örfáum vikum? Margir staðnæmdust við stjórnarskrána.

Virðulegi forseti. Ég ætla að rifja hér upp ummæli sem féllu í umræðum um þær stjórnarskrárbreytingar hið örlagaríka sumar 1940. Sá sem hafði hvað mesta framgöngu um breytingar á frönsku stjórnarskránni á þessum tíma var franskur stjórnmálamaður sem hét Laval. Ég ætla að vitna í ræðu hans þar sem hann segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Við erum nú að greiða fyrir það blæti sem tengdi okkur við lýðræðið og við verstu öfgar kapítalismans á sama tíma og allt í kringum okkur í Evrópu var verið að búa til nýjan heim.“

Með öðrum orðum voru lýðræðið og kapítalisminn sökudólgarnir. Þessu þurfti að breyta. Einn af leiðtogum sósíalista í franska þinginu á þessum örlagadögum sagði eftirfarandi um breytingar á stjórnarskrá í kjölfar þess að franski herinn hrundi, með leyfi virðulegs forseta:

„Við verðum að segja skilið við fortíðina. Við trúðum á frelsi einstaklingsins, á sjálfstæði mannsins, en þetta var ekkert nema mynd af þeirri framtíð sem var handan okkar. Við verðum núna að byggja upp á nýtt og á nýjum gildum. Við verðum að segja skilið við fortíðina og við verðum að byrja upp á nýtt.“

Reyndar deildu ekki allir frönsku þingmennirnir þessum skoðunum. Ég ætla að leyfa mér að vitna í — og þetta er auðvitað í lauslegri þýðingu minni, virðulegi forseti — einn þingmann sem hafði reyndar verið ráðherra til 1936, Flandin, sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Breyta stjórnarskránni? Hvers vegna? Hvaða þörf er á því að breyta okkar stofnunum og okkar stjórnarskrá? Vandinn er sá að við fórum ekki eftir þeim.“

Stjórnarskrá Frakklands var breytt sumarið 1940. Henni var breytt, auðvitað í miklum æsingi enda aðstæður skelfilegar, og henni var breytt með hörmulegum hætti sem lagði þar með grunn að Vichy-stjórninni og stöðu Pétains sem einræðisherra nokkurs konar.

Af hverju, virðulegi forseti, rifja ég þetta upp? Það er sú hætta sem myndast ef það verður mikill óróleiki, það tapast stríð eða það verður efnahagshrun, að ætla að hlaupa þá til og gjörbylta, ekki bara gera einhverjar afmarkaðar breytingar heldur gjörbylta stjórnarskrá eins lands.

Virðulegi forseti. Það er umhugsunarefni og það er rétt að líta til sögunnar í þessum efnum og þeirrar staðreyndar að strax að stríði loknu settust Frakkarnir við það að breyta stjórnarskránni, enda hafði sú breyting sem var gerð 1940 haft skelfilegar afleiðingar.

Nú ætla ég ekki að jafna saman að fullu hörmungum Frakklands sumarið 1940 og því efnahagshruni sem hér gekk yfir, augljóslega ekki, en lærdómurinn er sá að menn þurfa að ganga varlega um stjórnarskrána og gæta sín á því að þegar aðstæður koma upp í samfélögum sem skekja þau jafnvel að grunni að hlaupa þá ekki af stað og ætla sér að kollvarpa allri þjóðfélagsskipuninni.

Virðulegi forseti. Því tek ég undir þá skoðun sem kemur fram í grein Pawels Bartoszeks sem sat í stjórnlagaráði, og var þangað inn kjörinn upphaflega í kosningu sem því miður reyndist síðan ógild, þar sem hann segir í niðurlagi greinar sinnar, með leyfi forseta:

„Hvað er þá best að gera? Viljum við skapa þá hefð að knappur þingmeirihluti geti alltaf hunsað mjög eindregin tilmæli evrópskra sérfræðinga um stjórnskipan og þrýst stjórnarskrárbreytingum í gegn með hæpnum einhliða fullyrðingum um að í raun hafi þegar verið brugðist við álitinu? Eða eigum við að skapa þá hefð að menn taki mark á slíkum álitum, geri nauðsynlegar breytingar í rólegheitum og sendi svo málið aftur út til Feneyjanefndarinnar? Væri það ekki hefð sem við gætum öll verið stolt af?“

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir þessi lokaorð Pawels Bartoszeks í grein hans í Fréttablaðinu í dag.

Sný ég mér þá að einstökum ákvæðum sem ég ætlaði að gera að umtalsefni í þessari ræðu. Ég ætla fyrst að víkja að 65., 66. og 67. gr. Í 65. gr. er eftirfarandi lagt til, með leyfi virðulegs forseta:

„Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Kröfuna ber að leggja fram innan þriggja mánaða frá samþykkt laganna. Lögin falla úr gildi ef kjósendur hafna þeim en annars halda þau gildi sínu. Alþingi getur þó ákveðið að fella lögin úr gildi áður en til þjóðaratkvæðis kemur.

Þjóðaratkvæðagreiðslan skal fara fram innan árs frá því að krafa kjósenda var lögð fram.“

Það er þessi tala, tíu af hundraði, sem ég velti fyrir mér. Ef ég man rétt eru á kjörskrá á Íslandi um 230 þús. manns. Hér er þá um að ræða 23 þús. undirskriftir eða yfirlýsingar um að krafist sé þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að það þurfi aðeins að velta þessari tölu fyrir sér. Í löndum eins og Sviss þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru tíðar háttar þannig til að í raun og veru er ekki um að ræða neina formlega stjórnarandstöðu og aðhaldið með stjórnarmeirihluta ef nota má það orð, eða þeim sem eru við völd, er meðal annars komið frá þjóðaratkvæðagreiðslum, tíðum þjóðaratkvæðagreiðslum.

Við höfum byggt upp fyrirkomulag, líkt og flestar aðrar þjóðir hafa, þar sem er stjórn og stjórnarandstaða. Hjá okkur eru þetta nærri undantekningarlaust samsteypustjórnir þar sem að öllu jöfnu er ekki mikill munur á stjórn og stjórnarandstöðu í þinginu, oft ekki nema nokkrir þingmenn þar á milli.

Það sem ég hef áhyggjur af í þessu fyrirkomulagi er það að öflug stjórnarandstaða getur á grundvelli þessa ákvæðis gert líf hverrar ríkisstjórnar gjörsamlega óbærilegt. Hvað á ég við? Nú tek ég dæmi af mínum flokki, Sjálfstæðisflokki, sem er í stjórnarandstöðu núna. Skráðir flokksmenn Sjálfstæðisflokksins skipta þúsundum, reyndar tugþúsundum. Í Reykjavík einni eru tæplega 20 þús. manns skráðir í Sjálfstæðisflokkinn. Ég held að í ungliðahreyfingu flokksins í Reykjavík séu 5–6 þús. félagsmenn og á landinu öllu eru þetta tugir þúsunda. Hér er lagt til að 23 þús. manns geti kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hvað þýðir það? Það mundi til dæmis þýða að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í þeirri stöðu sem við erum í núna þar sem hann er í stjórnarandstöðu tækifæri, án þess að leita út fyrir sín vébönd, til þess að taka hver einustu lög sem honum hentar og senda út skilaboð til flokksmanna sinna um að skrifa undir ályktun um að setja þau lög í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hef þess vegna áhyggjur af því að þetta sé of lág tala, ekki bara út af stærð Sjálfstæðisflokksins sem að mínu mati mætti vera stærri og fjölmennari og þyrfti að vera það fyrir þessa þjóð, heldur vegna þess að það samspil sem myndast á milli þessa ákvæðis og síðan þess fyrirkomulags sem við höfum í stjórnmálum okkar getur kallað fram svona atburðarás. Síðan er hitt sem ég hef alltaf haft áhyggjur af, að það getur liðið allt að ár þar til þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram þannig að lögin þá þegar Alþingi hefur afgreitt þau frá sér taka gildi, réttaráhrifin myndast og svo getur liðið ár þar til sú krafa er raungerð í kosningum.

Menn sjá hvaða vanda það getur búið okkur. Lög sem Alþingi setur skapa réttaráhrif, réttarstöðu, geta búið mönnum réttindi. Hvað ef menn hafa nýtt sér þau réttindi á grundvelli slíkra laga sem síðan eru felld í þjóðaratkvæðagreiðslu ári síðar? Það er umhugsunarefni að hafa þennan frest svona langan.

Virðulegi forseti. Í öðru lagi kem ég þá að 66. gr. þar sem lagt er til í fyrsta lagi að tveir af hundraði kjósenda geti lagt fram frumvarp til laga eða tillögu til þingsályktunar á Alþingi. Ég held, enn og aftur, að þetta séu nokkuð lágar tölur. 2% af 230 þús. manns eru 4.600, það er innan við félagafjöldann í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Tíu af hundraði kjósenda, er síðan haldið áfram með í 66. gr., geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði, svo og frumvarp Alþingis komi það fram.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er, þetta ákvæði finnst mér allt að því galið, að það sé hægt að leggja inn í þingið frumvarp og svo geti Alþingi lagt fram einhvers konar gagnfrumvarp og ef frumvarp kjósendanna hefur ekki verið dregið til baka verði þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég þarf eiginlega ekki að hafa mörg orð um það hvað þetta er sérkennilegt fyrirkomulag.

Í næstu grein, þegar verið er að fjalla um framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæðagreiðslu, er sagt að í lögum skuli kveðið á um framkvæmd málskots eða frumkvæðis kjósenda, svo sem um form og fyrirsvar fyrir kröfunni, tímafrest til söfnunar undirskrifta og um fyrirkomulag þeirra, hverju megi til kosta við kynningu og — hér er stórt atriði — hvernig afturkalla megi kröfuna að fengnum viðbrögðum Alþingis. Látum vera að 23 þús. manns hafi skrifað upp á að lagt yrði fram frumvarp til Alþingis, að fram hafi komið mótfrumvarp Alþingis og því stefni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég geri mér grein fyrir því að hér er sagt að það skuli kveðið á um það í lögum hvernig fara skuli með að afturkalla megi kröfuna, en ég held að ef við ætlum að setja þetta í stjórnarskrá væri mjög nauðsynlegt að á sama tíma lægi fyrir útfærsla á því hvernig það verður gert. Þá væri búið að sýna hvernig ætti að standa að slíku. Sjá menn til dæmis fyrir sér að það þurfi til einhvern hundraðshluta þeirra sem skrifuðu undir, að þeir þurfi að skrifa undir annað skjal þar sem þeir kalla kröfuna til baka? Eða verður það algjörlega á valdi svokallaðra forsvarsmanna þessarar kröfu eða beiðni að þeir einstaklingar geti tekið ákvörðun fyrir þessa 23 þús. manns sem hafi skrifað upp á þessa beiðni?

Hvernig sjá menn þetta fyrir sér? Þetta þarf auðvitað að vera útfært sæmilega nákvæmt og vitrænt áður en menn setja svona lagað inn í stjórnarskrá, áður en þetta fer inn í grundvallarlög landsins.

Eða hvernig er þetta hugsað? Er það hugsað sem einhver ákveðinn hundraðshluti, meira en helmingur? Dugar það? Dugar að helmingur þeirra sem skrifuðu upp á þetta segi: Ég vil að þetta verði dregið til baka? Eða sjá menn það virkilega fyrir sér og í alvörunni að það verði á forræði örfárra einstaklinga að snúa við beiðni 23 þús. Íslendinga? Hvernig í ósköpunum á þetta að ganga upp? Hver er hugsunin hér að baki? Það er engin afgreiðsla í málinu að segja: Þessu verður skipað með lögum. Það er engin afgreiðsla á þessu máli ef menn ætla sér að setja þetta inn í stjórnarskrá.

Hitt er síðan líka að í 67. gr. er kveðið á um að þau mál sem mundu falla undir 65. og 66. gr. og séu gild í þjóðaratkvæðagreiðslu þurfi að varða almannahag. Sá sem hér stendur vildi gjarnan vera laus við að úrskurða um það hvaða mál varða almannahag og hver ekki. Ég tel það mjög einstaklingsbundið mat og í það minnsta vildi ég ekki þurfa að álykta um það fyrir hönd annarra. Þess vegna er sú leið farin, af því að ég held að mörgum öðrum þingmönnum sé svipað farið, að segja eins og hér er sagt, með leyfi forseta:

„Rísi ágreiningur um hvort mál uppfylli framangreind skilyrði skera dómstólar þar úr.“

Dómstólar skera úr um hvort mál varði almannahag. Í fyrsta lagi geri ég athugasemd við það að svona mál fari til dómstólanna. Ég tel að það sé ekki hlutverk dómstóla að greiða úr svona spurningum. Það hlýtur alltaf að verða mjög matskennt hvað telst til almannahagsmuna og almannahags og hvað ekki. Á grundvelli hvers eiga dómstólar að dæma? Eru einhver lög sem leiðbeina dómstólum um það hvað fellur undir almannahag og hvað ekki? Hvernig eiga dómstólarnir að vinna þessa vinnu sína? Ég átta mig ekki alveg á því, en það getur verið að fyrirsvarsmenn frumvarpsins í þinginu geti útskýrt það fyrir mér á eftir. Ég er mjög spenntur að heyra það vegna þess að það yrði líka mjög hjálplegt fyrir okkur þingmennina ef það kæmi fram að einhvers staðar er til eitthvert skapalón sem skilgreinir hvað fellur undir almannahag og hvað ekki. Dómstólarnir verða í sömu stöðu og við hin sem sitjum í sæti löggjafans, þeir þurfa að leggja eitthvert mat á þetta og ég tel að þetta eigi ekkert heima hjá dómstólunum.

Svo hefur mér alltaf fundist áhugavert þegar talað er um að nauðsynlegt sé að auka lýðræðið, fólki sé auðvitað treystandi til að taka ákvarðanir í þessum málum sem snúa að almannahag, en svo kemur alltaf listi yfir mál sem við ætlum ekki að treysta fólki til að taka afstöðu til. Hvernig lítur sá listi út? Í 67. gr. er sagt, með leyfi virðulegs forseta:

„Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem eru sett til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt.“

Það sem við segjum við almenning þegar við opnum þetta svona er þetta: Við viljum gjarnan að þið getið kosið um mál sem varða almannahag en hér er listi yfir þau mál sem við treystum ykkur ekki til að fást við af því að þið væruð vís til að taka ranga ákvörðun í málinu. Það eru mál sem hafa fjárhagslega þýðingu, sem snúa að þjóðréttarlegum skuldbindingum o.s.frv.

Ég hef aldrei heyrt nákvæma útlistun á rökunum fyrir þessu, önnur en þau að það sé hætta á að teknar verði rangar ákvarðanir í mikilvægum málum, menn vilji ekki að einhvers konar popúlísk sjónarmið verði ofan á í svona málum og því sé ekki hægt að senda þau í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hef aldrei verið í hópi sérstakra áhugamanna um þjóðaratkvæðagreiðslur og tel að það þurfi að fara mjög varlega með þetta og að þjóðaratkvæðagreiðslur eigi fyrst og síðast og alfarið að vera bindandi þar sem er val á milli tveggja kosta, já eða nei, og það séu bindandi niðurstöður. Ég tel til dæmis ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur mjög óæskilegar, óheppilegar og það hafi sýnt sig um margt í þeirri atkvæðagreiðslu sem fór fram um drög að stjórnarskrá og þær spurningar sem þar voru settar inn í.

Virðulegi forseti. Um þetta má hafa langt mál en þetta eru helstu atriðin sem ég vildi nefna varðandi 65., 66. og 67. gr. þessara tillagna.

Sný ég mér þá að ákvæði um náttúruauðlindir. Hér er á ferðinni eitt af þessum grundvallarmálum í samfélagi okkar, hvernig við skipum eignarhaldi á náttúruauðlindum. Ég hef ítrekað, og ætla ekki að fara aftur yfir það núna, rætt þá skoðun mína að ég telji hugtakið þjóðareign merkingarlaust hvað varðar eignarréttarlegt samhengi og fyrir því hafa fjölmargir lagaspekingar fært mjög góð rök. Ég staðnæmist við einn þátt þessa máls alveg sérstaklega, þar sem segir eftirfarandi í 34. gr.:

„Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda, sem og annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn.“

Það er orðalagið „gegn fullu gjaldi“. Verði þetta að stjórnarskrá lýðveldis okkar og það komið í stjórnarskrá að það skuli vera fullt gjald þurfa menn auðvitað að skilja nákvæmlega hvað það þýðir. Hvað þýðir fullt gjald? Þetta verður algjört lykilatriði í öllum okkar efnahagsumsvifum sem byggja á nýtingu náttúruauðlinda. Við fórum í þinginu fyrir ekki svo löngu í gegnum mikla umræðu um auðlindagjald og auðlindarentu. Það kom fram frumvarp frá hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra þar sem gerð var tilraun til þess að útfæra eitthvert slíkt hugtak, ekki á grundvelli hugsunarinnar um fullt gjald, heldur átti að reyna að grípa utan um auðlindarentuna og haga skattlagningu þannig að öll sú renta rynni til ríkisins, auðlindarenta, sá hluti rentunnar sem á sér grunn í auðlindinni sjálfri. (Gripið fram í.) Síðan er annar hluti rentunnar sem á hlut í því sem einstaklingarnir gera og nú á ég orðastað við þingmann hér úti í sal og biðst forláts, en það er nefnilega spurningin um rentuna.

Það var grundvöllur að hinum svokallaða georgisma á árum áður sem byggði á því, það var framlag hans, að hvað varðar nýtingu lands er ákveðin grunnrenta sem hefur ekkert að gera með jarðabætur eða annað sem einstaklingarnir leggja þar í. Síðan eru jarðabætur sem einstaklingar fjármagna og leggja vinnu sína í. Það á að vera þeirra en grunnrentan, auðlindarentan, jarðrentan, á að renna til samfélagsins. Á þessu grundvölluðust hugmyndir georgismans. Um þetta hafa menn deilt ansi mikið. Stóra vandamálið er: Hvernig ætla menn að greina á milli? Hvernig ætla menn að finna út hvað er vegna auðlindarinnar sjálfrar og hvað er vegna ákvarðana og fjárfestinga og áhættutöku einstaklinganna? Þetta hefur reynst mönnum, og ekki bara hér á Íslandi heldur um allan heim, mjög erfitt að formgera. Við sáum í umræðunni hér í fyrravor þegar við vorum að ræða um stöðu sjávarútvegsins og gjaldtöku á þá grein á grundvelli slíkrar hugsunar hversu erfitt það var og allt að því ógerlegt.

Hér er síðan lagt til að leggja á fullt gjald. Segjum að þetta þýði að það eigi að ná þessari grunnrentu, segjum að orðin „fullt gjald“ þýði það. Ég hef ekki séð það útlistað nákvæmlega í tillögum og greinargerð hvernig menn hugsa það fyrirkomulag. Ef þetta orðalag verður að niðurstöðu verður það uppspretta endalausra þræta og málaferla. Hvað þýðir þetta í raun? Hvernig munum við vinna löggjöf okkar á grundvelli þessarar setningar þegar kemur að nýtingu náttúruauðlinda á Íslandi? Hvernig munum við gera það?

Virðulegi forseti. Vandinn er sá að þarna kemur ekkert svar. Það kemur engin útlistun, það kemur engin greinargerð þar sem vísir fræðimenn setja upp einhvers konar skema um þetta. Það kemur ekkert svar í þingsalnum hvernig nákvæmlega skuli að þessu staðið. Það er áhyggjuefni fyrir okkur, alveg verulegt.

Ég ætla þó að leyfa mér, rétt aðeins í þessu samhengi, að fara aftur í þjóðareignarhugtakið. Ég verð eiginlega að gera það þó að ég hafi sagt að ég ætlaði ekki að fara út í langar útlistanir á því, ég hef gert það hér áður, en það er eitt áhugavert. Núna liggur fyrir þinginu frumvarp til laga um stjórn fiskveiða og að nokkru á grundvelli þeirra hugmynda sem ég hef verið að ræða hér er verið að tala í því frumvarpi um skiptingu á einhvers konar rentutöku af greininni.

Í greinargerð með frumvarpinu er talað um ráðstöfun tekna aflamarks úr flokki 2. Hér stendur, virðulegi forseti, með yðar leyfi:

„Í frumvarpinu er gerð tillaga um að tekjur af ráðstöfun aflamarks úr flokki 2 á kvótaþingi skiptist í þessum hlutföllum: Ríki 40%, sveitarfélög 40% og markaðs- og þróunarsjóður 20%. … Hvað snertir ráðstöfun til sveitarfélaga sýnist eðlilegt að tekið verði m.a. mið af sögulegu mikilvægi sjávarútvegs á einstökum svæðum eða í einstökum landshlutum, en sérstök nefnd skal gera tillögur að því leyti …“

Virðulegi forseti. Hvað er verið að segja hér? Í öðru orðinu er því haldið fram, í þessu frumvarpi, í umræðum, af stuðningsmönnum þessa frumvarps og reyndar líka þeim sem styðja þessar breytingar á stjórnarskránni, að um sé að ræða þjóðareign. Gott og vel, þetta litla dæmi sem ég tek núna varpar fram ákveðnum spurningum: Hvernig má það vera að það eigi að mismuna sveitarfélögum eftir því hvernig þau eru í sveit sett, leyfi ég mér að segja, virðulegi forseti, þegar kemur að útdeilingu arðs sem er tekinn á grundvelli þjóðareignar? Hér stendur að 40% af því sem kemur vegna ráðstöfunar aflamarks úr flokki 2 eigi að renna til sveitarfélaga en þó þannig að það verði í hlutföllum eftir því hve mikil útgerðarsagan er í hverju sveitarfélagi.

Augljóst má heita að útgerðarsaga til dæmis þeirra sem búa í Hveragerði er ekki löng eða mikil. Hið sama á við um Selfoss og Egilsstaði, en allt eru þetta staðir á Íslandi. Fólkið sem þarna býr er hluti af íslenskri þjóð og ef um er að ræða þjóðareign á auðlindinni í eignarréttarlegum skilningi eiga þeir einstaklingar sem þar búa nákvæmlega sama rétt á afrakstrinum upp á krónu og aðrir íbúar landsins. Menn geta ekki mismunað fólki á grundvelli þjóðareignarhugtaksins vegna þess að það er þjóðareign. Allt annað blasir síðan við ef um er að ræða ríkiseign. Allt önnur mynd blasir við ef um er að ræða eign ríkisins, þá hefur ríkið til þess tækifæri, það hefur réttindi til að mismuna þegnum landsins hvað varðar útdeilingu gæða, þá að sjálfsögðu á málefnalegum forsendum.

Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að ef menn vildu vera heiðarlegir í umræðu sinni um þessi mál mundu þeir auðvitað ekki tala um þjóðareign í þessum skilningi, heldur setja mjög skýrt ákvæði um ríkiseign. Hvers vegna vilja menn það ekki? Hvers vegna finnst mönnum það óþægilegt? Vegna þess að það hljómar ekki eins vel. Það hljómar miklu betur að tala um þjóðareign en þá lenda menn í svona vandræðum. Þá lenda menn út af um leið þegar kemur að því að finna þessu stað í lögum og reglum landsins.

Þeir sem segja að þetta sé þjóðareign geta aldrei samþykkt þá tilhögun mála sem felst í frumvarpi um stjórn fiskveiða, að sveitarfélögum verði mismunað og einstaklingum hvað varðar útgreiðslu á þessum arði. Það er ekki hægt að fallast á það. Það er fullkomin rökleysa, en ef hér stæði ríkiseign væri um allt annað að ræða. Þá væri málið skýrt. Öll formgerð málsins er hvort eð er sú að um er að ræða ríkiseign. Forsvarsmenn ríkisins, kjörnir fulltrúar, fara með ríkiseignina og þá er eðlilegt að kalla hlutina bara sínum réttu nöfnum en vera ekki að þvæla svona með þetta.

Virðulegi forseti. Tími minn er svo gott sem á þrotum. Ég vil að lokum snúa mér aftur að því sem ég nefndi í upphafi. Núna stöndum við frammi fyrir því á Alþingi Íslendinga að fyrir liggur frumvarp til stjórnarskipunarlaga þar sem allri stjórnarskrá lýðveldisins er breytt um margt í grundvallaratriðum. Flestum núverandi ákvæðum er breytt og fjöldi nýrra ákvæða hefur bæst við. Ég hef bent á að það verkefni sem stjórnlagaráðinu var falið var næstum óleysanlegt. Stjórnlagaráðið lagði á þeim fjórum mánuðum sem það starfaði ekki bara fram 35 eða svo nýjar stjórnarskrárgreinar, orðaði þær og kom þeim í búning, heldur gerði líka misveigamiklar breytingar á nærri öllum öðrum ákvæðum núgildandi stjórnarskrár. Þess vegna er ekkert skrýtið þegar við fáum álit fræðimanna og síðan Feneyjanefndarinnar að það komi fram verulegar áhyggjur málsmetandi manna um þetta mál allt saman.

Ég veit að af hálfu hv. þingmanna stjórnarliðsins er kannski ekki mikið mark tekið á okkur hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar og kannski fer þetta allt saman fyrir ofan garð og neðan sem við erum að segja og verður afgreitt sem einhvers konar andstyggilegheit og það að menn vilji vera á móti, en mér finnst í það minnsta áhugaverð, og sný mér þá að því sem ég nefndi í upphafi, grein Pawels Bartoszeks um það sem hann kallar sprengjur Feneyjanefndarinnar. Væri ekki í það minnsta ástæða til að hlusta eftir þeim sem þá sátu í þessu stjórnlagaráði og hafa nú fengið til sín niðurstöðu Feneyjanefndarinnar og hafa lýst áhyggjum sínum af þessu máli?

Virðulegi forseti. Skyldi ekki vera ástæða til að staldra við?