141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:02]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég kemst greinilega ekki í þjóðareignarhugtakið í þessum andsvörum.

Við erum hér í 2. umr., hv. þm. Illugi Gunnarsson, til þess að hlusta hvert á annað. Það er gott þegar samhljómur kemur upp í ræðum manna um tiltekin álitaefni sem hér eru. Eitt af þeim er ákvæði um fullt gjald.

Ég tel enga meinbugi á því að vísa til þess að haga beri gjaldtöku fyrir afnot og hagnýtingu auðlinda í eigu þjóðarinnar þannig að það stuðli að og hafi sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi. Hvað þýðir það að vísa til sjálfbærrar þróunar þarna? Það þýðir að ekki eigi að ganga á auðlindina þannig að hún klárist, heldur eigi hún að gefa af sér til lengri tíma ákveðna nýtingu, ákveðna auðlegð.

Það er einmitt það sérleyfi til (Forseti hringir.) takmarkaðrar nýtingar sem býr til auðlindarentuna (Forseti hringir.) sem við ræðum um. Það veit hv. þingmaður, sem er hagfræðingur, betur en ég.