141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:47]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að hafa raskað ró hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Til að gera mjög langa sögu stutta á þeim 40 sekúndum sem ég hef eftir þá var ég að fara yfir að í aðdraganda þessa máls hefur málflutningur meiri hlutans og hv. formanns verið ævinlega, (Gripið fram í.) að mínu mati, sá að þegar menn hafa komið upp með athugasemdir og tillögur er ýmist brugðist við þannig að nú þegar hafi verið búið að taka tillit til þessa eða að það yrði skoðað og síðan virtist ekki vera gert mikið með það.

Ég tiltók það sérstaklega og hrósaði nefndinni fyrir að hafa tekið tillit til þeirra athugasemda sem eru komnar inn í breytingartillögurnar, en ég benti líka á að svolítið sérstakt væri, til að mynda varðandi 34. gr., að vera með nefndarálit sem segir eitt og breytingartillögur sem segja annað. Búið er að breyta þessu ákvæði í tví- eða þrígang frá (Forseti hringir.) grundvelli stjórnlagaráðs. Þá verður maður að spyrja sig: Hvað þýðir það í raun?