141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski málið í hnotskurn, vegna þess að upplifun fólks hefur verið sú að meiri hlutinn hafi ætlað að keyra mál í gegn með offorsi og látum og hlusta ekki á neitt. Það virðist þó vera orðin breyting þar á og vitna ég bara til orða hv. formanns í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi þar sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar opnaði á það í fyrsta skipti að skynsamlegt sé að setjast yfir einhver ákvæði og ná fram niðurstöðu um þau. (Gripið fram í.)

Það verður að segjast eins og er — (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég óska eftir að fá hljóð til að svara þessu.

(Forseti (ÁÞS): Vill þingmaður gefa ræðumanni hljóð.)

Það skortir ekki þær tillögur, það er búið að vinna slíkar tillögur í mörgum nefndum. Ég verð að segja eins og er að þær hugmyndir sem komu fyrst fram frá stjórnlagaráðinu eru ekki nothæfar sem grundvöllur vegna þess að vinna þarf málið þannig að við tökum til greina það sem sérfræðingarnir hafa bent á, að ekki sé bara talað um (Forseti hringir.) eina auðlind heldur allar auðlindir. Við þurfum að horfa til lengri tíma og ekki festa okkur í þeim átökum (Forseti hringir.) sem málið er í í dag.