141. löggjafarþing — 82. fundur,  15. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:50]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að halda mig við innihald en ekki form og málsmeðferð á þessum stutta tíma.

Ég vil þakka fyrir ræðuna og rifja upp aðkomu Framsóknarflokksins að þessu máli. Ég vísa til þingskjals nr. 648 frá 136. löggjafarþingi þar sem flutningsmenn eru Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Guðjón A. Kristjánsson og Birkir Jón Jónsson, fyrir hönd Framsóknarflokksins.

Í 1. gr. segir að náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti séu þjóðareign. Ríkið fari með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og svo framvegis. Þessi málsgrein er öll inni í þeim tillögum sem hér liggja fyrir og ég tel að hún sé í fullu samræmi við stefnu Framsóknarflokksins, ef ég skil hana.

Næstu tvær málsgreinar í frumvarpinu frá 136. þingi er að finna í 33. og 35. gr. (Forseti hringir.) Það er rétt sem hv. þingmaður sagði, það skiptir miklu að dýpka þetta ákvæði með skýrri greinargerð. Við erum að vinna að því og við óskum samstarfs um það.